Prestar og prédikarar á námskeiði

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins er þessa dagana staddur í Pókot í Keníu. Hann kennir á námskeiði fyrir presta og prédikara kirkjunnar. Hann fylgir einnig eftir ýmsu öðru sem Kristniboðssambandið vinnur að í Pókot s.s. byggingum kirkna, skóla og heimavista. Hægt hefur verið að fylgjast með störfum hans á fésbókarsíðu SÍK.

Hér er færsla frá 1. mars: Nemendur námskeiðsins, prestar og prédikarar ákváðu að klæða sig upp fyrir myndatöku, sem fram fór rétt fyrir tímann minn svo ég fékk að vera með. Blessunarríkir dagar, mjög svo tímabært námskeið til andlegrar endurnýjunar, hressingar og hvíldar. Höfum átt góð samtöl innan og utan kennslustofunnar. Megi Drottinn blessa þjóna sína og þjónustu þeirra í ríkum mæli á komandi mánuðum og árum.