Posted on

Mikilvægt starf í Búlgaríu

Hjónin Gísli og Nora Jónsson starfa í Búlgaríu. Þau eru kristnir ráðgjafar og kennarar. Kristniboðssambandið styður starf þeirra. Hér koma molar úr fréttabréfi frá þeim.

Við heilsum ykkur í frelsarans Jesú nafni. Það er ekki í frásögu færandi að við höfum búið í rótgrónu hverfi síðustu 6 árin, í gamalli blokk sem var byggð á árunum 1970-80, en fyrir um 3 mánuðum voru loksins settir upp ljósastaurar og nú er gatan upplýst í fyrsta sinn í sögunni.

Í byrjun þessarar viku komum við heim eftir 5 daga ráðstefnu í Slóveníu með kristniboðum sem starfa innan sömu samtaka í Evrópu. Við ókum til Slóveníu í gegnum Serbíu og Króatíu. Það var reglulega gaman og fallegt landslag á leiðinni. Ráðstefnan var tími frábærrar kennslu og samfélags með skemmtun og góðum mat. Það er hvetjandi að heyra hvernig Drottinn vinnur  í mismunandi löndum, hvernig hann notar einstaklinga með mismunandi hæfileika en sem hafa það sameiginlega markmið að lofa nafn Drottins. Það var ánægjulegt að hitta gamla félaga og einnig nýtt fólk.

Í starfinu höfum við nóg að gera. Nora er á kafi í starfi meðal Rómafólks eða sígauna. Hún tók þátt í sumarbúðum fyrir sígaunabörn. Það var áskorun að fara með börnin á hótel með leiðbeinendum frá ýmsum löndum sem þekktust lítið og höfðu aldrei áður tekið þátt í svona sumarbúðum. Það var líka spennandi að sjá hvernig börnunum yrði tekið á hótelinu þegar þau notuðu sömu sundlaug og Búlgarar. En allar þessar áhyggjur voru óþarfar, gleði og ánægja skein úr hverju andliti í leikjum, kennslu og öðru því sem þau tóku sér fyrir hendur. Krakkarnir, sem voru á aldrinum 8-16 ára, sögðust vilja lofa Guð meira næst þegar þau fara í sumarbúðir. Stoyanka, sem er leðtogi hópsins, og er sjálf sígauni var mjög sátt þrátt fyrir að enn þurfi mikið að gerast til að breyta huga og hegðun þessarra krakka og fjölskyldum þeirra. Markmiðið er að þau hafi Drottinn sem leiðtoga sinn, öðlist menntun og setji sér markmið að lifa og starfa eins og venjulegur borgari en ekki búa í hjöllum með litla sem enga menntun. Ein nóttin var erfið þar sem krakkarnir upplifðu árásir, tvær stúlkur dreymdi að þær væru að kafna og allir krakkarnir enduðu á göngunum skelkuð og grátandi. Einn sem þekkir vel til Rómafólksins upplýsti að á meðal þeirra væri mikil galdratrú. Það tók nokkurn tíma að róa öll börnin en til þess notaði starfsfólkið söguna af Jósef, hvernig Guð verndaði hann í erfiðleikunum. Þeim var einnig kennt að ákalla nafn Jesú. Meginþemað í biblíufræðslunni í sumarbúðunum var sagan um Jósef og bræður hans. Starfsfólkið var ánægt með sumarbúðirnar og fannst Guð vera að verki.

Gísli sinnir 12-16 skjólstæðingum á viku. Þeir glíma við hin ýmsu vandamál s.s. afleiðingar nauðgunar og mansals. Þau hjón þakka öllum sem biðja fyrir þeim og starfinu.

Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni“ (Jóhannesarguðspjall 15.16).

Hægt er að styrkja starf Noru og Gísla með fjárframlagi og fyrirbæn. Upplýsingar eru veittar á skrifstofu Kristniboðssambandsins í síma 5334900.

Posted on

SAT-7 byrjar útsendingar á skólarás fyrir börn flóttamanna

Nýja rásin heitir SAT-7 ACADEMY og hefjast útsendingar á henni 1. september. Útsendingar verða allan sólarhringinn og námsefnið er á arabísku. Milljónir flóttamanna og barna þeirra munu með þessum útsendingum fá tækifæri til að taka þátt í gagnvirku „skólastarfi“.

Talið er að þrettán milljón börn hafi, vegna stríðsátaka, þurft að yfirgefa heimili sín og skóla. Þeir skólar sem ekki eru rústir einar eru yfirfullir og ótti við ofbeldi og átök hefur leitt til kennaraskorts og margir foreldrar eru smeykir við að senda börnin sín í skóla. Fjölskyldur flýja í von um betra líf en stefna um leið framtíð og menntun barna sinna í tvísýnu. Hætt er við að heil kynslóð verði án menntunar.

SAT-7 ACADEMY er ætlað að brúa bilið eins og hægt er. Efni stöðvarinnar miðar að því að efla og  hvetja foreldra til þátttöku í námi barna sinna. Auk akademískrar nálgunar er lögð áhersla á félagslegan og sálrænan þroska barna.

Á meðal efnis eru eftirfarandi þættir:

Læknirinn þinn – ýmsar heilsufarstengdar upplýsingar, líkamshirða, fyrsta hjálp og mikilvægi hreyfingar.

Sögur sagðar – þessi þáttur er ætlaður börnum sem glíma við áfallastreituröskun.

Ráðgjafinn – þáttur þar sem fjölskylduráðgjafi fer yfir ýmislegt í uppeldi barna auk þess að ræða áföll og tilfinningar.

Skólinn minn – er þáttur sem sýndur hefur verið lengi á barnarás SAT-7 en verður nú fluttur yfir á nýju rásina. Þessi þáttur hefur notið mikilla vinsælda og talið að um ein milljón barna hafi um lengri eða skemmri tíma fylgst með honum. Þar er með gagnvirkum hætti kennt að lesa, reikna og skrifa.

Fjölmargir sérfræðingar á sviði mennta- og uppeldismála koma að gerð þáttanna og efni þeirra að sjálfsögðu sniðið að arabískri menningu og siðum. Biðjum algóðan Guð að blessa þessar útsendingar að þær megi tala inn í líf og aðstæður fólks með kærleika Jesú Krists.

Posted on

Samkoma miðvikudag og fimmtudag

Samkoma verður miðvikudaginn, 20. sept. kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Ræðumaður verður Oddvar Sövik frá Noregi. Hann talar einnig á samkomu fimmtudagskvöldið, 21. sept. kl. 20 á sama stað. Hann mun tala um bænina bæði kvöldin.

Fólk er hvatt til að mæta og taka með sér gesti.

Kaffi og meðlæti eftir samkomu.

Allir hjartanlega velkomnir.

Posted on

Kjötsúpa og samkoma

Miðvikudaginn, 13. september kl. 19, býður Kristniboðsfélag karla í kjötsúpu  í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60. Kjötsúpan kostar kr. 2000 á mann.

Kl. 20 hefst samkoma á sama stað. Ræðumaður er Karl Sigurbjörnsson.

Bryndís Schram Reed syngur og segir frá borðunarferð til Nikaragúa.

Fólk er hvatt til að koma og bjóða með sér gestum.

Posted on

Haustmarkaðurinn – fjölbreytt vöruúrval

Árlegur haustmarkaður kristniboðsins verður laugardaginn 9. september kl. 12-16 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60, 3. hæð. Á boðstólnum verður grænmeti (kartöflur, tómatar – grænir og rauðir, agúrkur, spergilkál, hvítkál, rauðkál, rófur, gulrætur, lambhaga-salat, sveppir m.a.)  Einnig er í boði lýsi, kaffi, búðingar, Toro-pottréttir, grænar baunir, Ora-sósur, 7 up, Floridana drykkir, súkkulaði, kex, harðfiskur og fleira.

Þá má ekki gleyma bakkelsi og sultum, jarðaberjum og fleiru.

Loks má finna hreinlætisvörur, tannbursta, kerti, munnþurrkur, hreinsisvampa, blóm, skreytingar og fleira. Sjón er sögu ríkari og alltaf er best að koma snemmma því þá er vöruúrvalið mest. Kaffi og vöfflur verða einnig á boðstólunum á staðnum.