„Ó, hve mér finnst sælt að syngja.“ – Tónleikar í minningu Bjarna Eyjólfssonar 24. okt. kl 16

Sunnudaginn 24. okóber kl. 16 í Lindakirkju í Kópavogi verða haldnir tónleikar í minningu Bjarna Eyjólfssonar en hann var formaður Kristniboðssambandsins frá 1939 til dánardags árið 1972 og einnig formaður KFUM 1965-1972.
Eftir Bjarna liggur fjöldi ljóða, söngva og sálma sem hann samdi og þýddi m.a. til notkunnar í starfi kristilegu félaganna.
Á tónleikunum verður aðeins flutt brot af því sem hann skildi eftir sig en það verður blanda af þekktum sálmum og ljóðum sem ekki hafa heyrst mikið áður og sumt við nýsamin lög. Flytjendur á tónleikunum verða
Sálmavinafélagið, skipað þeim Bjarna Gunnarsyni, Rúnu Þráinsdóttur og Helgu Vilborgu Sigurjónsdóttur ásamt gestum og Karlakór KFUM undir stjórn Helgu Vilborgar Einnig mun Dagbjartur Elí Kristjánsson leika á trompet með kórnum.
Ljósbrot, kvennakór KFUK mun flytja tvö lög í útsetningu Keith Reeds stjórnanda síns.
Gunnar Jóhannes Gunnarsson mun flytja fróðleiksmola um lög og störf Bjarna á milli laga. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis en tekið verður á móti framlögum til kristniboðsstarfs í Voító í SV Eþíópíu en Bjarni Eyjólfsson var í forystu þegar starf Kristniboðssambandsins þar í landi hófst á sjötta áratug síðustu aldar.

Á tónleikunum verður einng til sölu nokkur eintök af bókinni Úr minningasafni. Kvæði, sálmar og andleg ljóð eftir Bjarna Eyjólfsson, sem Árni Sigurjónsson tók saman og kom út árið 1988 og bókin Úr djúpi reis dagur sem Bjarni skrifaði á sínum tíma á norsku og var upphaflega gefin út í Noregi til að afla fjár til starfsins. Bókin er uppvaxtarsaga Ásgeirs, en í raun Bjarna sjálfs. Hún var gefin út á íslensku nokkrum árum eftir andlát Bjarna.