Norður-Kórea

Stjórn Norður-Kóreu hefur markvisst reynt að útrýma kristinni trú en þrátt fyrir það fjölgar þar kristnu fólki.

Í 70 ár hefur Kóreu verið skipt í tvö ríki. Í suðri er lýðræði. Þar er ein fjölmennasta kirkja heims, Yoido Full Gospel kirkjan, með um milljón meðlimi. Í Suður-Kóreu telur 30% þjóðarinnar sig vera kristna. Þeir senda fleiri kristniboða til starfa en nokkurt annað ríki.

Fyrir seinni heimsstyrjöldina voru einnig margir kristnir í Norður-Kóreu. Einvaldsherrann Kin Jung Un, barnabarn stofnanda ríkisins, Kim Il Sung, kom til valda árið 2011. Ekkert bendir til að landið stefni í lýðræðisátt. Í 14 ár hefur landið verið efst á lista þeirra landa þar sem kristið fólk er mest ofsótt (World Watch List).

Margt kristið fólk býr við ofsóknir í heiminum en í engu landi er eins mikið fylgst með lífi fólks og í Norður-Kóreu.

Starfsmaður Norea Mediemisjon, sem er útvarpskristniboð sem Kristniboðssambandið styður, Harald Endresen komst til Norður-Kóreu fyrir nokkrum árum. Hann segir: „Sá sem ég var í sambandi við í Norður-Kóreu sagði mér að í bænum sem ég heimsótti væru 200.000 myndavélar sem fylgdust með íbúunum. Þá er hverjum manni skylt að láta yfirvöld vita ef þeir verða varir við eitthvað gagnrýnisvert hjá öðrum. Um leið og ég kom yfir landamærin frá Kína fékk ég fylgdarmann sem var alltaf með mér. Ég mátti ekki tala við fólk og ekki taka myndir af hverju sem var. Þegar ég yfirgaf landið varð ég að sýna allar myndir sem ég tók  og ég hefði lent illa í því ef ég hefði einhvers staðar skilið eitthvað eftir, s.s. bók.“

Það er algerlega bannað að reka kristniboð í landinu en nokkrar kirkjur eru í höfuðborginni. Yfirvöld nota þær til að sýna að trúfrelsi ríki en staðreyndin er sú að litið er á kristið fólk sem svikara. Ætlast er til að þjóðin tilbiðji leiðtoga sína sem guði.

Fram kemur í ársskýrslu samtakanna Opnar dyr, að dæmi séu um að börn í leikskóla hafi sagt að foreldrar þeirra væru kristnir og afleiðingarnar hafa verið að foreldrunum var refsað harðlega. Þess vegna þora margir kristnir foreldrar ekki að segja börnum sínum frá trú sinni fyrr en þau verða eldri.

Útvarpskristniboð

Norea hefur í mörg ár ásamt samstarfsfélögum búið til dagskrá sem hægt er að hlusta á í Norður-Kóreu. Nýlega hitti Harald Endresen konu, Jinga, sem flúið hafði til Suður-Kóreu. Hún sagðist hafa hlustað á kristilegu útvarpssendingarnar í laumi og það hefði leitt sig til kristni. Hún vissi að maður hennar var skírður en af ótta við að upp um þau kæmist þorðu þau ekki að tala saman um kristna trú. Hún sagði að kristnir foreldrar óttuðust að ef börn þeirra kæmi upp um þau óafvitandi yrðu þau handtekin.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa markvisst reynt að útrýma kristinni trú en þeim hefur ekki tekist það. Það minnir á orð Páls postula í  Rómverjabréfinu: „Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?“

(Heimild: Utsyn 06/2018. Espen Ottosen.)