Categories
Fréttir

Metfjöldi á árlegri ráðstefnu Sat-7 sjónvarpsstöðvarinnar

Sat7 afmæli 3350 manns kom saman dagana 6.-8. apríl til að fagna 20 ára afmæli Sat-7 og taka þátt í ársfundi hennar í Nikósíu á Kýpur.

Á afmælisdagskránni ríkti mikil gleði og þakklæti til Guðs sem hefur blessað stöðina. Sat-7 hefur miðlað von og kærleika til milljóna manna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku undanfarin 20 ár.
Ráðstefnugestir voru stuðningsmenn víðs vegar að úr heiminum, kirkjuleiðtogar, opinberir gestir og starfsfólk Sat-7. Stofnandinn Dr. Terence Ascott tengdi sögu stöðvarinnar trúfesti Guðs. Hann sagði m.a.: „Það gengur kraftaverki næst hvernig Guð hefur séð fyrir þessu starfi, hvað varðar starfsfólk, fjáröflun, öryggi og að sigrast á ótal erfiðleikum.“
Mikill árangur
Meira en 80% af dagskránni á fimm rásum stöðvarinnar, arabísku-, farsi-, tyrkensku-, barna- og aukarásinni, er búin til af innlendu kristnu fólki. Fluttar voru skýrslur frá hverri rás stöðvarinnar, vitnisburðir áhorfenda, stuttar vídeómyndir voru sýndar og brot úr ýmsum dagskrárliðum. Vöxtur stöðvarinnar er gífurlegur. Sat-7 er stjórnað frá ellefu stöðum í heiminum og sýnir 840 klukkustunda dagskrá vikulega. 31. maí á þessu ári eru 20 ár frá fyrstu útsendingu stöðvarinnar en mikið hefur breyst síðan þá.
Áræðin stöð
Dr. Ascott tók oft til máls á ráðstefnunni. Þegar hann leit tilbaka á hið smáa upphaf minntist hann þess þegar fyrstu kristnu Arabarnir og síðar Íranir og kristnir Tyrkir ákváðu að stíga fram fyrir myndavélarnar og játa trú sína opinberlega. Það þótti mjög uppörvandi.
„Í sannleika sagt þá höfðum við stór áform í upphafi – að nota óritskoðað gervihnattasjónvarp til að boða fagnaðarerindið í löndum þar sem kristinn vitnisburður hafði verið bannaður um aldir. En við höfðum litla kunnáttu á því sem til þurfti til að ná markmiðunum.“
Þegar kristilegt sjónvarp var fyrst kynnt í þessum löndum fengum við alltaf sömu viðbrögðin: Kristnir Arabar þora ekki að koma fram í sjónvarpi; það er ekki hægt að safna nægum fjármunum; ríkisstjórnir munu ekki leyfa útsendingu kristilegra þátta.
„Smátt og smátt yfirunnum við þessar hindranir. Sat-7 tilheyrir öllum kirkjudeildum, er með útsendingar í 25 löndum og er með upptökuver í höfuðborgum þriggja landa Mið-Austurlanda.
Er þörf á Sat-7
Framfarir í tækni aukast stöðugt. Á meðan gervihnattasjónvarp er enn notað verður Sat-7 áfram. Um þörf á Sat-7 í framtíðinni sagði Dr. Ascott: „Gervihnattasjónvarp er enn eini sýnilegi fjölmiðillinn sem kemst inn á heimili fólks án ritskoðunar eða truflunar. Það nær jafnvel til svæða án rafmagns. Gervihnattasjónvarp er skilvirkara og ódýrara en nettenging og nær því til milljóna manna með góðri mynd og góðu hljóði. Einnig er auðveldara fyrir ólæsa að horfa á gervihnattasjónvarp. Ég hika ekki við að segja að gervihnattasjónvarp á enn fullkomlega rétt á sér!“ Sat-7 heldur áfram að færa út kvíarnar á nýjum samskiptamiðlum.Við fylgjumst með tækniþróuninni og notum ýmsar nýjungar á sviði internetsins.“
Þjónar hinni líðandi kirkju
Alþjóðleg stjórn Sat-7 fór yfir stöðu stöðvarinnar og áætlanir fyrir næsta ár. Í stjórninni eru 28 einstaklingar, flestir kristið fólk frá Mið-Austurlöndum. Ekkert hefur spurst til eins stjórnarmeðlimar í þrjú ár en þá var sýrlenski, orþódoski biskupinn í Aleppo, Mar Gregorios, numinn á brott, ásamt samstarfsmanni sínum, grísk orþódoska biskupnum Bulos Yaziji. Þeir ásamt fjölda annarra presta í Sýrlandi hafa horfið og enginn veit um afdrif þeirra. Starfsmenn Sat-7 halda áfram að biðja fyrir þeim og hvetja aðra til þess.

Frekari upplýsingar um Sat-7 sjónvarpsstöðina má finna á www.sat7.org

Sat7 afmæli 4 Sat7 afmæli Sat7 afmæli2