Megi allir Kínverjar heyra

posted in: Fréttir | 0

Kína útv.„ Því að ég er þess fullviss að hvoki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum“ (Róm.8.38-39)

Útvarpsstöðin Voice of Salvation (Rödd Fagnaðarerindisins) útvarpar kristilegum þáttum til margra lokaðra landa. Kristniboðssambandið styður fjárhagslega þátt hjá stöðinni sem sendur er til Kína.

Nýlega fékk stöðin uppörvandi bréf: „Frá því að ég heyrði útsendingar ykkar fyrst fyrir sex mánuðum hef ég hlakkað til hvers sunnudags. Þegar rödd ykkar hljómar er komið að sunnudagsguðsþjónustu hjá mér. Þið vitið sjálfsagt að fangelsi eru syndum spilltir staðir. Fangar tala helst um fjárhættuspil, eiturlyf, segja klámfengna brandara eða kvarta hástöfum. Þegar ég hlusta á þáttinn ykkar finnst mér ég kominn í kirkju…þó að við séum aðeins tveir eða þrír sem hlustum þá segir Biblían: Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra (Matt.18.20).“ 

Fagnaðarboðskapurinn fer á öldum ljósvakans yfir fjöll og fljót. Boðskapinn er ekki hægt að stöðva og nær bæði til hlustenda í bæjum og borgum. Og jafnvel inn í fangelsin, þar sem fangar hlýða á Guðsorð. Þrátt fyrir að frelsi þeirra sé skert geta þeir glaðst og lofað Guð eins og þeir væru staddir í kirkju. Þá tilfinningu geta þeir sem búa við frelsi vart skilið. Vegna gjafa og fyrirbæna kristniboðsvina getur útvarpskristniboð náð til svo margra, fanga, fólks í afskekktum sveitum Kína þar sem engin kirkja er, til ungs fólks í stórborgum, bílstjóra, Kínverja sem búa utan Kína og svo mætti lengi telja. Útvarpsstöðin fær bréf frá hlustendum sem segja frá aðstæðum sínum. Bréfin sýna að Guð lætur sér annt um alla sem leita hans. Kínverjar heyra í útvarpinu að ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs. Höldum áfram að biðja fyrir útvarpskristniboði og þeim sem heyra fagnaðarboðskapinn í útvarpinu.