Categories
Fréttir

Mamma, er pabbi glæpamaður?

Open doorsHún er sjö ára stúlkan sem spyr móður sína. Við hittum föður hennar á ferð okkar um Mið-Asíu. Hann sat í fangelsi í eitt ár vegna þess að hann er kristinn. Skólafélagar dóttur hans sögðu henni að pabbi hennar væri glæpamaður þar sem hann væri í fangelsi. Hún þekkti ekki föður sinn sem afbrotamann. Hann var kærleiksríkur faðir sem bar umhyggju fyrir fjölskyldu sinni. En hann var í fangelsi og vinir hennar sögðu….

Við hittum hann þegar hann hafði afplánað dóminn og spurðum hvaða áhrif fangelsisvistin hefði haft á hann. Hann svaraði: „Hún hefur dregið mig nær Guði. Ég hefði ekki viljað vera án hennar þrátt fyrir illa meðferð.“ Hann var barinn og honum gefið rafstuð í fangelsinu.

Aðstæður hinna kristnu í landinu eru slæmar. Oft þegar þeir hittast eru gerð áhlaup á staðinn og kristnir leiðtogar sektaðir eða fangelsaðir.

Við hittum mann sem hafði fengið köllun til að dreifa kristilegum bókum. Hann hætti lífi sínu við það. Eiginkonan og börnin urðu eftir í borginni á meðan hann ók um sveitirnar og færði þeim, sem tekið höfðu kristna trú, Biblíuna. Fjöldi varðstöðva voru við veginn. Erfitt var að fela bækurnar í bílnum. Hann varð að treysta því að Guð lokaði augum hermannanna svo þeir sæju ekki bækurnar. Hann hefur ekki enn verið tekinn! Guð er mikill og opnar Orði sínu leið, einnig í dag. Menn hætta lífi sínu fyrir fagnaðarerindið, einnig í dag.

Þú getur hjálpað þessum hugrökku kristnu mönnum með því að biðja fyrir þeim. Biddu þess að hermennirnir komi ekki auga á Biblíurnar sem eru fluttar um landið. Biddu fyrir fjölskyldunni sem heima situr og bíður frétta af eiginmanni og föður, hvort hann hafi komist á áfangastað. Biddu fyrir þeim sem sitja í fangelsi vegna trúar sinnar á Jesú.

(Heimild: Åpne dörer)