LMF 50 ára

Frá vinstri: Betsy Halldórsson, Haraldur Ólafsson kristniboði, Helga Magnúsdóttir, Herborg Ólafsson kristniboði og Stína Gísladóttir.

LMF er kristniboðsfélag kennara. Betsy Halldórsson hefur verið í félaginu frá upphafi. Hún skrifaði grein um félagið í Kristniboðsfréttir sem nýlega kom út. Hér má lesa greinina í heild sinni.

Fyrstu kynni mín af LMF (Kristniboðsfélagi kennara) eru frá sólbjörtum sumardegi árið 1964, þegar Helga Magnúsdóttir, sem lengi var kennari við Ísaksskóla og lektor við Kennaraháskólann, kom heim til mín og sýndi mér boðsbréf sem henni hafði borist á norrænt LMF mót. Helga þekkti ekkert til LMF og vildi vita hvort ég þekkti það. Ég hafði aldrei heyrt félagið nefnt og í dag finnst mér spaugilegt að rifja upp umræður okkar um þetta dularfulla félag.

Helga var á þessum árum önnum kafin í stjórn sumarbúðanna í Vindáshlíð og vildi því verja frítíma sínum vel. Þess vegna velti hún fyrir sér hvers konar félag stæði fyrir mótinu og hvort hún ætti nokkuð erindi þangað. Eftir nokkrar umræður sagði ég að þetta væri  örugglega gott félag fyrst boðsbréfið hefði upphaflega komið til Salbjargar Eyjólfsdóttur, trúaðrar konu í Hafnarfirði, en Salbjörg var systir Sigurborgar Eyjólfsdóttur móður Kristínar Guðleifsdóttur konu Felixar Ólafssonar fyrsta íslenska kristniboðans í Konsó.

Það varð úr að Helga fór á mótið sem haldið var í Sandefjord í Noregi og heillaðist hún af því sem hún sá þar og heyrði. Þetta var fyrsta norræna mótið sem Helga fór á en þau áttu eftir að verða fleiri.

Þegar Helga kom aftur heim  langaði hana mjög til þess að mynda LMF hóp með trúuðum kennslukonum á Íslandi. Hún ræddi það oft við mig, þar sem við störfuðum náið saman í Hlíðarstjórn á þessum árum, en því miður verð ég að viðurkenna að hún talaði fyrir daufum eyrum. Ég hafði engan áhuga á að stofna félag. Mér fannst nóg að gera í kristilegu starfi, þó að ekki væri stofnað enn eitt nýtt félag.

En Helga gafst ekki upp og eftir meira en þriggja ára umhugsun og undirbúning, þar sem hún án efa lagði málið í Guðs hendur, boðaði hún til kynningarfundar á heimili sínu  23. mars 1968.  Átta konur mættu á kynningarfundinn. Þessi fundur markar upphaf kristniboðshópsins okkar og er hann því 50 ára á þessu ári.

Í ljós kom að tvær kennslukonur hér á landi voru í félögum á Norðurlöndum. Sigurbjörg Jónsdóttir, fyrrum stjórnarkona í KFUK, var í danska félaginu, en Herborg Ólafsson kristniboði í því norska.

Því miður missti ég af fyrsta fundinum vegna þess að ég var á móti því að stofna sérstakt kennslukvennafélag. Helga Magnúsdóttir var heillandi persóna og hafði mikil áhrif á umhverfi sitt og henni tókst að gera mig forvitna, enda var erfitt að þiggja ekki heimboð hennar þar sem við störfuðum náið saman í stjórn Vindáshlíðar og hún hafði næg tækifæri til að ýta við mér. Þegar ég fór að mæta á LMF fundina líkaði mér svo vel að ég læt mig helst ekki vanta.

Við hittumst í heimahúsum annan laugardag í mánuði alla vetrarmánuðina. Á fundunum sameinumst við um fyrirbæn og fórn þ.e. við biðjum fyrir starfinu á kristniboðsakrinum og hér heima, fræðumst um kristniboðið og söfnum peningum til starfsins. Hópurinn okkar er ekki stór, þó höfum við stundum verið 10 – 15 á fundi.  Þar sem við erum allar í KFUK og ýmsum kristniboðshópum höfum við fram að þessu valið að styrkja og tilheyra Kristniboðssambandinu.

Hvað er LMF og hvert var upphafið?
Við nefnum hópinn okkar alltaf LMF. Nafnið lætur ef til vill undarlega í eyrum, en ástæðan fyrir nafngiftinni eru tengsl okkar við kristniboðsfélög kennara á Norðurlöndunum. LMF er Kristniboðsfélag  kennara.

LMF (Lærernes missionsforbund) starfar á Norðurlöndunum og í Suður-Slésvík, auk þess eru deildir á kristniboðsökrum. LMF er félag kennara á öllum stigum, frá leikskóla til háskóla, kennara sem vilja efla kristniboð með fyrirbæn og fórn. Einkunnarorð LMF eru  í 57. Davíðssálmi, 6. versi: “Guð. Dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.”  LMF styður kristniboð í öllum álfum heims.                          

LMF rekur ekki sjálft kristniboð, en það styrkir kennslukonur á kristniboðsakrinum eða verkefni tengd skólastarfi svo sem launakostnað að hluta til eða að fullu, launakostnað vegna innfæddra starfsmanna, kostnað vegna Biblíuþýðinga, eða veita fé til kaupa á ýmsum hlutum sem vantar í skóla eða til kennslu. Verkefni LMF eru því mjög fjölbreytileg og unnin víða.

 Fyrsta LMF félagið var stofnað í Svíþjóð árið 1899.

Rétt fyrir aldamótin1900 bjó ung kennslukona Kristina Örn í Närke í Svíþjóð. Guð kallaði Kristinu til starfa á kristniboðsakrinum og þegar tíminn var kominn, og hún á förum til Kína, sá hún fyrir sér trúaðar kennslukonur sameinast í bæn og fórn við útbreiðslu Guðs ríkis. Í huga hennar komu orð Malakía í 3. kafla,10 versi: “Færið tíundina alla í forðabúrið svo að matföng séu til í húsi mínu. Reynið mig með þessu, segir Drottinn hersveitanna, og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun.”

Á ráðstefnu sem haldin var í Närke sumarið 1899, kallaði Kristina 6 kennslukonur til fundar við sig og hvatti þær til að stofna félag kristinna kennslukvenna, þvert á allar kirkjudeildir, sem legðu fram krafta sína til þess að efla skólastarf á kristniboðsakrinum.

Kristina fékk Sofiu Knutsson, vinkonu sína, til þess að hafa orð fyrir þeim á fundinum þar sem hún sjálf var frekar óframfærin. Sofia opnaði Biblíuna og las orðin sem standa í spádómsbók Jesaja 60. kafla, 22. versi. “ Hinn minnsti verður að þúsund,  hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða þessu þegar að því kemur.Sofia sagði nokkur orð um textann og hvatti konurnar til dáða. Þessi fundur er talinn stofnfundur og fyrsti fundur LMF.

Kristina Örn fór til Kína í september árið 1899. Þar starfaði hún á barnaheimili fyrir börn sem borin höfðu verið út en það var mjög algengt í Kína á þeim árum og virðist reyndar enn miðað við hve mörg börn eru ættleidd frá Kína í dag.

Kristinu auðnaðist ekki að starfa lengi sem kristniboði, því að hún féll í boxarauppreisninni aðeins 5 mánuðum eftir komuna til Kína.  “Boxararnir” voru nefndir svo, af því að þeir töldu sig vera ósæranlegir þegar þeir höfðu framið helgiathöfn sem fólst í hnefaleikatilburðum. Í “Boxarauppreisninni “ féllu þúsundir kristinna Kínverja auk margra kristniboða.

Starf Kristinu á kristniboðsakrinum var stutt en félagið sem hún var með í að stofna,  starfaði í 118 ár og tók þátt í mjög mörgum og fjölbreytilegum verkefnum víða um heim.

Þremur árum eftir stofnun LMF í Svíþjóð, voru stofnuð félög í Danmörku og Noregi og nokkrum árum síðar í Finnlandi og á Færeyjum. Það var svo ekki fyrr en árið 1968, sem við fórum að hittast reglulega hér á landi, og í ár eru 50 ár síðan Helga boðaði til fyrsta fundarins.

Starf LMF á Norðurlöndum var mjög öflugt, en endurnýjun hefur verið hæg á seinni árum og svo fór að LMF í Svíþjóð var lagt niður haustið 2017 eftir 118 ára samfellt starf. Upphaflega voru félagar kvenkennarar en á seinni árum hafa margir karlar tekið þátt í LMF og heiti félagsins breytt frá Lærerindernes í Lærernes forbund eða forening.

Árið 1902 kom út fyrsta fréttablað sænsku samtakanna, seinna hófu félögin í Noregi, Danmörku og Finnlandi einnig útgáfu fréttablaðs. Bænalisti með nöfnum kristniboðanna er sendur út í desemberblaði hvers árs, einnig fá félagar send bænakort með fyrirbænaefnum.

Mikið samstarf er milli LMFfélaganna, t.d. er sameiginlegur biblíulestur sendur á milli landanna  og haldin eru norræn mót. Norrænu mótin eru sjötta hvert ár. Á mótunum segja kristniboðar frá starfi sínu og auk þess eru þar kristniboðsfyrirlestrar og biblíulestrar. Mjög áhugavert er að hlusta á  kristniboðana segja frá störfum sínum í framandi löndum.

Helga Magnúsdóttir fór á mörg LMF mót, og tók virkan þátt í þeim með söng sínum. Hún kynntist þar mörgum norrænum kennslukonum og naut mikillar virðingar.  Síðast tók hún þátt í norrænu móti árið 1987. Hún andaðist 27. júlí árið 1989 og var hennar minnst í LMF blöðum á öllum Norðurlöndunum.                                                                                                                             

Betsy Halldórsson