Leysho frá Ómó Rate

Leysho er ungur Dasenetsmaður. Hann komst til trúar í Mekane Yesus kirkjunni í Kabúsía þegar hann var 16 ára. Leysho fékk strax áhuga á að taka þátt í boðunarstarfi kikjunnar. Hann var því túlkur um tíma. Þegar hann varð tvítugur ákvað hann að kaupa vindmyllu, til að vökva akur. Hann fór því að velta fyrir sér hvar hann gæti haft hana. „Einhver staðar sem fáir kristnir eru!“, var einasta hugsun hans. „Þá get ég sagt frá Jesú á stað þar sem fáir þekkja hann.“ Hann valdi stað miðja vegu milli Kabúsía og kristniboðsstöðvarinnar. Við ána rétt hjá Torongole. Fyrir tveim árum voru 10-12 ungmenni og börn skírð þar. Nú sækja um 30 manns kirkjuna. Reyndar megum við ekki byggja kirkju þarna, en kennslustofu; það megum við. Leysho er ekki bara fagnaðarboði, heldur líka lestrarkennari. Þegar þetta er ritað erum við að reisa litla kennslustofu í Torongole. Stofu sem nýtist fyrir þennan litla flokk, sem kirkja og svo þrisvar í viku sem kennslustofa í „Af ‘Daasanach“ (tungu Dasenetsfólksins).

Leysho er brennandi áhugasamur, ungur maður. Hann er í 5. bekk, hefur lokið biblíuskóla-námskeiði og kennaranámskeiði. Auk náms, boðunar-og kennslustarfa, er hann með akurinn sinn. Hann leggur því mikið á sig. En löngun hans er skýr: Að fleiri fái að heyra fagnaðarerindið. Leysho er giftur og á tveggja ára dreng. Biðjið fyrir Leysho og fjölskyldunni hans.

Kalli