Kynþáttahatur í Afríku

Það kemur mörgum á óvart að heyra af kynþáttahatri milli þjóða í Afríku. Í vinsælum umræðuþætti á SAT-7 sem ber heitið Bridges (e. brýr) var nýverið til umfjöllunar morð á súdönskum presti í Egyptalandi. Presturinn hét Gabriel Tut Lam og kenndi við skóla sem er ætlaður súdönskum flóttamönnum í Egyptalandi. Hann var barinn til dauða í miðri kennslustund af egypskum manni sem gekk inn af götunni og hrópaði að hann hataði svertingja.

Annar súdanskur prestur að nafni Marko Deng lýsti í þættinum þeim ofsóknum og fyrirlitningu sem Súdanar mæta í Egyptalandi sem alltof algengum og að yfirvöld skeyti engu um kvartanir og kærur. Sérstaklega sorglegt var að mannvinurinn mikli Gabriel Tut Lam skuli hafa fallið fyrir hendi þessa ódæðismanns. Hann hafi sinnt afar mikilvægu starfi á meðal þeirra sem minnst mega sín.

Í gegnum landamæri Súdans að Egyptalandi hafa sl. ár fjölmargir leitað skjóls frá stríðsástandinu sem ríkt hefur í Súdan. Þeir hafast við í flóttamannabúðum á vegum Sameinuðu þjóðanna eða mynda lítil þorp daglaunafólks og búa þar við kröpp kjör. Súdanar eru flestir mjög dökkir á hörund á meðan flestir Egyptar eru ljósari yfirlitum. Ólíkt litarhaft, minni menntun, kristin trú, fátækt og fleira er á meðal þess sem magnar upp fordóma og ofsóknir.

Fjölmargir Egyptar horfa á SAT-7. Í þættinum Bridges eru mikilvæg mál rædd þvert á trúarbrögð. Lögð er áhersla á skyldu kristinna manna í Egyptlandi og múslíma sömuleiðis að virða grundvallar réttindi Súdana og annarra til lífs og friðar.

(Heimild sat7.org)