Kristniboð í Japan

posted in: Japan | 0
Myndin er frá árlegri ráðstefnu kristniboða í Japan. Kristniboðunum hefur fækkað mjög mikið.
Myndin er frá árlegri ráðstefnu kristniboða í Japan. Kristniboðunum hefur fækkað mjög mikið.

Norskum kristniboðum í Japan hefur fækkað um helming undanfarið. Ástæðan er m.a. veikindi sem valda því að kristniboðarnir geta ekki snúið aftur til Japans í bráð. Sama er uppi á teningnum hjá finnsku kristniboðunum. Staðan er því erfið, bæði þeim sem urðu að fara heim og hjá þeim sem eftir eru í Japan. En þrátt fyrir manneklu meðal kristniboða mun það ekki hafa áhrif á japönsku kirkjuna. Hún stendur á eigin fótum óháð kristniboðunum. Innlendir starfsmenn fá hins vegar fleiri verkefni en áður.

Norðmenn vinna að því að fá nýja kristniboða til Japans. Þeir munu starfa á nýjum stöðum. En það tekur langan tíma að þjálfa nýtt fólk því málanámið tekur tvö ár. Á þeim árum mynda kristniboðar oft náin tengsl við Japani. Störf kristniboða felast m.a.  í því að kynnast fólki og vitna fyrir þeim um trú sína á Jesú.

Leifur Sigurðsson og Katsuko, eiginkona hans, störfuðu sem kristniboðar í Japan en hafa dvalið á Íslandi í eitt ár. Leifur notaði árið vel, m.a. við að segja frá starfinu í Japan í máli og myndum. Katsuko verður vígð til kristniboðsstarfa á kristniboðsmótinu á Löngumýri í Skagafirði laugardaginn 18. júlí kl. 17. Þangað eru allir kristniboðsvinir velkomnir. Fjölskyldan er á förum til Japans. Þau munu búa á Rokkóeyju í Kobe.

Fólk er hvatt til að biðja fyrir kristniboðinu í Japan og sértaklega Leifi og fjölskyldu.