Ýmiss konar fræðsla er í boði á vegum Kristniboðssambandsins. Íslenskukennsla er yfir vetrarmánuðina á þriðjudags- og föstudagsmorgnum kl. 9-11:30. Þátttaka er ókeypis. VInsamlegast fáið nánari upplýsingar á skrifstofunni, sími 533 4900.

Kristniboðssambandið og aðildarfélög þess bjóða upp á stutt og lengri námskeið og fræsðlustundir, en slíkt er auglýst hér á síðunni og samfélagsmiðlum.

Kristniboðssambandið vill efla starf á meðal og fyrir ungmenni og þannig miðla kristniboðshugsjóninni áfram til yngra fólks. Umsjón með þeim þætti hefur Ólafur Jón Magnússon skólaprestur og starfsmaður SÍK í hlutastarfi. Stefnt er að því að bjóða áfram upp á hópferð 17 ára og eldri á kristilegt ungmennamót í Noregi sumarið 2019. Hafa má samband við skrifstofuna í síma 5334900 eða senda póst á sik@sik.is.

SÍK hefur skipulagt KRUNG-ferðir til Afríku frá árinu 1996. Markmið ferðanna er að kynna fyrir íslenskum ungmennum sögu og menningu framandi þjóðflokka í Afríku um leið og tækifæri gefst til að kynnast og taka þátt í kristniboðsstarfi SÍK. Ætlunin er að bjóða upp á ferð, hugsanlegar ferðir á fleiri en einn stað, sumarið 2020. Til greina kemur að heimsækja Keníu, Eþíópíu, Japan og jafnvel Búlgaríu eða Grikkland. Opnað verður fyrir umsóknir um áramótin.

Skilyrði fyrir þáttöku í KRUNG er þátttaka í fræðslu, bæði um kristna trú, Biblíuna, kristniboðið og menningu þess svæðis sem heimsótt er.

 

Algengar spurningar

Hvað kostar í KRUNG-ferð?

Heildarkostnaður í tengslum við ferðir ræðst að miklu leyti af því verði sem fæst á flugmiðum. Gera má ráð fyrir heildarkostnaði v. ferðar um og yfir 400.000 kr.

Hvenær er ferðin og hve löng er hún?

Yfirleitt er farið um mánaðamótin júlí/ágúst og dvalið í ca. 3 vikur.

Er þörf á bólusetningum?

Flestir þurfa á einhverjum bólusetningum að halda, sem er ákveðið í samráði við lækni.

Eru stríðsátök á þeim svæðum sem ferðast er um?

Engin áhætta er tekin í þessu sambandi.

Eru fararstjórar íslenskir?

Aðalfararstjóri, sem er með hópnum allan tímann, er íslenskur, en hugsanlega nýtur hann liðsinnis innfædds aðstoðarmanns eða bílstjóra.

Til hvaða landa er ferðast?

Kristniboðssambandið er með megin hluta starfsemi sinnar í Eþíópíu og Keníu og farið hefur verið til skiptis til þessara landa.

Er hægt að tala ensku við fólkið?

Í Keníu er víðast hvar hægt að bjarga sér á ensku en í Eþíópíu er það erfiðara.

Hvað með hitabeltissjúkdóma?

Malaría er það sem helst þarf að hafa í huga en við henni má taka fyrirbyggjandi lyf sem margir kjósa að gera í samráði við sinn lækni.

Má neyta áfengis eða reykja í ferðinni?

Ferðin er reyk- og áfengislaus.

Hvar er gist í ferðunum?

Gist er í húsum kristniboðsins eða samstarfskirkjunnar á hverjum stað, annars á ódýrum hótelum.

Hver ber ábyrgð á mér í ferðinni?

Hver og einn ber alfarið og fulla ábyrgð á sjálfum/sjálfri sér í ferðinni. Lágmarksaldur er 18-20 ár, sem er ákveðið hverju sinni og auglýst.