Kristniboðssambandið styður menntun barna flóttamanna

Miklir erfiðleikar steðja að börnum og ungmennum í Mið-Austurlöndum vegna stríðsátaka. Meira en 13 milljónir barna (40% þeirra sem eru á skólaaldri) í Sýrlandi, Írak, Jemen, Líbýju og Súdan geta ekki sótt skóla vegna átaka. Mörg þeirra eru innilokuð á svæðum þar sem skólar og heimili eru rústir einar. Önnur hafa flúið heimkynni sín.

Án menntunar eiga þessi börn ekki mikla möguleika á góðri atvinnu í framtíðinni. Þessi kynslóð barna verður auðveld bráð hryðjuverkahópa og annarra öfgamanna sem bjóða vonsviknum og óánægðum ungmennum vinnu og tilgang.

Kristilega sjónvarpsstöðin Sat-7 hefur framleitt þætti fyrir börn í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku í 20 ár. Stöðin hefur áunnið sér traust foreldra sem vita að börnum þeirra er óhætt að horfa á þætti stöðvarinnar. Í tvö ár hefur stöðin sent út skólasjónvarp fyrir börn þar sem þeim er kennd arabíska, enska, stærðfræði og raungreinar. Fylgt er sýrlenskri og líbanskri námskrá við gerð þáttanna sem stjórnað er af menntuðum kennurum.

Í haust mun Sat-7 hefja útsendinar á nýrri rás, SAT-7 ACADEMY eða skólasjónvarpi til að mæta hinni gífurlegu þörf. Nýja skólarásin mun leggja áherslu á mun meira en grunnfögin lestur og stærðfræði.

„Börn þurfa að læra gagnrýna og sjálfstæða hugsun, lífsleikni og að vera skapandi, uppbyggjandi…hugmyndarík“, segir Dr. Terence Ascott framkvæmdastjóri Sat7. „Við munum leggja áherslu á gildismat, viðhorf og mótun næstu kynslóðar í Arabaheiminum. Við viljum að þau mótist af víðsýni og geti skapað lýðræðislegt samfélag.“

„Menntun og kennsla ungra barna er grunnurinn þar sem kærleikur, fyrirgefning og umburðarlyndi er eflt. Börnum er kennt frá unga aldri að hata aðra. Það leiðir til haturs, ofbeldis og afleiðingarnar eru hryðjuverk,“ segir þáttastjórnandi stöðvarinnar.

Kristniboðssambandið styður Sat-7 sjónvarpsstöðina með árlegu fjárframlagi. Ef þú vilt vera með og styðja nýja skólasjónvarp stöðvarinnar getur þú lagt inn á reikning 0117-26-2800 og merkt sem gjöf til Sat-7. Einnig er hægt að kaupa gjafabréf Kristniboðssambandsins sem kallast Sjónvarps- og útvarpskristniboð. Gjafabréfin frás í Basarnum, Austurveri og á skrifstofu SÍK. Kennitala SÍK er 550269-4149.

(Heimild Sat7.org)