Kristniboði í Vestur-Afríku

Sveinn Einar Friðriksson Zimsen býr og starfar, ásamt fjölskyldu sinni, á Fílabeinsströndinni. Hann skrifar:

Við erum núna búin að vera hér í Abidjan í um 9 mánuði og við höfum það gott, bæði stór og smá. Naomi og Aron eru mjög ánægð í alþjóðlega skólanum hér og Davíð og Neema eru ánægð heima hjá dagmömmu.

Ég og Aníta, eiginkona mín, vinnum bæði á aðalskrifsofu Norska kristniboðssambandsins hér í Vestur-Afríku. Ég er svokallaður „stedlig representant“, einskonar framkvæmdastjóri fyrir starfið í Vestur-Afríku. Og Aníta vinnur við ýmis stjórnunarstörf á skrifstofunni og er svo með sunnudagaskóla í kirkjunni okkar hér í Abidjan. Það er mikill munur á því starfi sem við sinnum hér og því við sinntum í Malí. Hér fer mikið af tíma okkar í skrifstofustörf fyrir framan tölvuskjái en í Malí liðu dagarnir undir mangótrjám með tebolla og núna búum við í stórborg með öllu því sem fylgir henni. Það er margt jákvætt við að búa í stórborg. Hér fæst t.d. nánast allt keypt í búðum hvenær sem er, en í Malí var markaðsdagur á föstudögum með mjög takmörkuðu vöruúrvali. Það er líka gott fyrir krakkana að fá að vera í bekk með öðrum krökkum, í Malí voru þau ein í skólanum. Þetta var mikil breyting fyrir okkur og við höfum saknað lífsins og starfsins í Malí mikið. En það gengur vel í nýja starfinu og okkur líður vel.

Við erum heldur ekki alveg hætt að hugsa um starfið í Malí, það er ennþá stór hluti af því sem við gerum hér í Abidjan. Starfinu þar er stjórnað héðan frá Abidjan og ég fer þangað allavega annan hvern mánuð í vikuferð. Ég þarf að sækja ýmsa fundi og ég fylgi líka starfinu okkar eftir. Aðeins einn kristniboði er í Malí en annar kemur í haust. Svo starfið heldur sem betur fer áfram þar. Við getum því miður ekki sent fjölskyldur til Malí, það var ákveðið eftir hryðjuverkaárásina sem við urðum fyrir. En við getum sent barnlaust fólk og þannig munum við halda starfinu gangandi þangað til að ástandið í landinu batnar.

Aníta fór líka eina ferð til Malí til að hitta vini og samstarfsfólk eftir að við yfirgáfum landið. Það var mikils virði fyrir hana og vini okkar í Malí.

Annars fer ég líka í heimsóknir með jöfnu millibili til norðvestur hluta  Fílabeinsstrandarinnar þar sem stór hluti starfs kristniboðsins fer fram.

Þið megið gjarnan biðja fyrir fólkinu hér á Fílabeinsströndinni og í Malí. Það er oft erfitt fyrir einstaklinga að vera kristinn í múslimskum fjölskyldum og þorpum. Það er líka erfitt fyrir þá sem eru forvitnir og leitandi að koma til þeirra kristnu til að læra meira um kristna trú. En það er samt opnara hér í Vestur-Afríku en í mörgum öðrum múslimskum löndum.

Biðjið líka fyrir ástandinu í Malí, að friður komist á, þannig að við getum haldið starfinu áfram og að fleiri fái að heyra Guðs orð.

Við erum mjög glöð að þið, íslenskir kristniboðsvinir, viljið fylgjast með okkur og metum bænir ykkar mikils.

Guð blessi ykkur.

Kær kveðja Sveinn Einar