Kristniboðar í Vestur-Afríku

Sveinn Einar Friðriksson Zimsen bjó og starfaði ásamt fjölskyldu sinni í Malí. Nú er fjölskyldan flutt til Fílabeinsstrandarinnar. Sveinn Einar sendi eftirfarandi fréttir.

 Við erum nú flutt til Abidjan á Fílabeinsströndinni. Það eru mikil viðbrigði þó að við höfum búið hér áður. Við fórum frá Malí mjög skyndilega vegna hryðjuverka sem við lentum í. Við dvöldum í Noregi og á Íslandi í sumar og jöfnuðum okkur en héldum tilbaka í haust. Við fengum þó ekki að fara heim í þorpið okkar og húsið okkar í Malí. Þetta er búið að vera erfitt fyrir bæði okkur hina fullorðnu og börnin. Við höfðum það mjög gott í Malí og eigum marga vini þar. Vinnan var bæði skemmtileg og gefandi, börnin höfðu mikið frelsi og skemmtilegt líf í afrísku sveitinni með iðandi mannlífi og dýralífi sem fylgir því að búa svo nálægt náttúrunni eins og við gerðum. Við söknum þess öll.

Núna erum við búin að koma okkur fyrir í stórborginni og líður vel. Höfum þegar verið í Abidjan í tvo mánuði og venjumst lífinu hér smátt og smátt. Tvö elstu börnin okkar eru byrjuð í alþjóðlegum skóla og eru komin í bekk með mörgum öðrum krökkum sem er mjög spennandi. Þau eru ánægð í skólanum. Tvö yngstu börnin eru heima í pössun og hafa það gott.

Ég og Aníta, eiginkona mín, erum byrjuð að vinna á skrifstofunni og í kirkjunni. Við munum bæði vinna við stjórnun kristniboðsins í Vestur-Afríku. Ég mun líka halda áfram að fylgja starfinu í Malí eftir. Ég fór þangað um mánaðarmótin september október og var þar í tvær vikur. Það var frábært að koma tilbaka og hitta vini. Ég lauk Alfanámskeiðinu sem ég hafði stjórnað áður en við yfirgáfum landið. Ég heimsótti líka biblíuleshópana okkar og gullnámuverkefnið. Þá pakkaði ég öllu dótinu okkar og sendi það til Fílabeinsstrandarinnar. Ég fer aftur til Malí í byrjun desember. Í janúar mun ég taka við yfirmannsstöðu kristniboðanna í Vestur-Afríku. Það kallar á mikla viðveru á skrifstofunni en ég reyni að fara reglulega til Malí.

Mig langar að þakka ykkur öllum, kristniboðsvinum á Íslandi, fyrir að hugsa til okkar og ekki minnst fyrir fyrirbæn, við metum það mikils. Við komum til með að þurfa á bænum ykkar að halda í framtíðinni.

Guð blessi ykkur.

Svenni