Categories
Fréttir

Kjellrún og Skúli í Pókot

Kjellrún og Skúli.
Kjellrún og Skúli.

Kristniboðarnir Kjellrún og Skúli eru komin til starfa í Pókot í Keníu. Margir hafa lagt leið sína til þeirra og heilsað upp á þau. Sumir segja þeim frá starfinu í söfnuði sínum. Margir söfnuðir eru lifandi og stöðugt er verið að stofna nýja söfnuði. Áhuginn á að ná lengra og lengra með fagnaðarerindið er mikill. Aðrir leita til þeirra hjóna vegna erfiðleika.

Inn á milli heimsókna hefur Skúli undirbúið kennslu á námskeiði fyrir verðandi prédikara, sem hann mun sinna næstu vikurnar. Tveir Norðmenn, Jostein Holmedahl og Erling Lundeby, kenna með Skúla.

Jostein og Skúli fóru í kirkju á sunnudaginn í Bandera sem er á hæðinni fyrir ofan kristniboðsstöðina í Kapengúría. Þegar komið var fram í miðja guðsþjónustu var kirkjan þétt setinn (um 200 manns). Guðsþjónustan var hefðbundin, mikið fjör og sungið og klappað af miklum krafti. Vitnisburðir tóku drjúgan tíma. Gestirnir urðu að tala og einnig gestir frá öðrum söfnuðum. Tveir kórar sungu og svo flutti einn af nemendum þeirra félaga góða ræðu. Í lok guðsþjónustunnar voru þrisvar sinnum tekin samskot. Guðsþjónustan var ekki nema um þriggja klukkutíma löng sem telst stutt í Pókot.

Rafmagnið fer og kemur eins og oft er í Kapengúría. Kemur það sér stundum illa. Kjellrún og Skúli senda kristniboðsvinum sínar bestu kveðjur og þakka fyrirbæn.