Karlastarf kirkjunnar fer fram á veitingahúsum

Kristnir karlmenn í Japan fá ekki mörg tækifæri til að ræða saman um daglegt líf sitt. Söfnuðurinn á Rokkóeyju hefur fundið leið.

Tilgangsríkt líf
Leifur Sigurðsson kristniboði skrifar: Við, hér í söfnuðinum, lesum saman bók Rick Warrens Tilgangríkt líf. Í fyrstu tóku bæði karlar og konur þátt en nú bara karlar. Í vor ákváðu nokkrir þeirra að hittast á veitingastað og borða saman. Þar ræða þeir um mál sem snerta karla, t.d. áskoranir sem þeir mæta í vinnu og heima. Við lesum Biblíuna og biðjum. Við erum að hugsa um að lesa vinsælt biblíulesefni frá Bandaríkjunum sem kallast Menn trúarinnar. Það hefur verið þýtt á japönsku.

Allir, bæði konur og karlar, eiga við vandamál að stríða, svo sem fjármál, hjónaband, barnauppeldi, siðprýði eða vandamál tengd vinnu. Það er því mikilvægt að hittast á öruggum stað þar sem hægt er að ræða málin og fá fræðslu sem byggist á Biblíunni. Erfiðast hefur verið að finna tíma sem hentar öllum í hópnum. Japanskir karlmenn eru mjög uppteknir. Enn hefur okkur ekki tekist að hittast allir í einu en við vonum að menn sjái mikilvægi þessa og gefi sér tíma.

Langir vinnudagar og dauðsföll
Vinnutíminn í Japan er sá lengsti í heiminum. Karlar eru marga tíma frá fjölskyldu sinni og heimili. Samkvæmt hefðinni er það karlmaðurinn sem sér fyrir fjölskyldunni á meðan konan sér um heimilið og barnauppeldið. Samfélagið í Japan er miklu meira kynskipt en á Vesturlöndum. Það myndast ójafnvægi í fjölskyldulífinu þegar karlinn er svo lítið heima. Flestir telja eðlilegt að karlar komi seint heim úr vinnunni þó að það sé breytilegt eftir fjölskyldum. Sumir vinna hreinlega þar til þeir detta dauðir niður. Opinberar tölur um slík dauðsföll eru nokkur hundruð á ári, þar með talin hjartaáföll, heilablóðfall og sjálfsmorð. Hinar raunverulegu tölur eru trúlega mun hærri. Langir vinnudagar leiða til þess að japanskir feður hafa lítinn tíma til að vera með fjölskyldum sínum.

Jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu
Félagsleg vandamál ungs fólks, firring og ofbeldi, hefur aukist hin síðari ár. Í kjölfarið velta margir fyrir sér hvort breyta þurfi jafnvæginu milli vinnu og fjölskyldu. Það eru sérstaklega ungir feður sem vilja verja meiri tíma með börnum sínum. Fækkun fæðinga bendir til að fjölskyldan er í kreppu. Fjölskylda sem er án föður telst hvorki góð fyrir börn né hjónabönd. Karlmenn sem fá ekki fastráðningu líta á það sem niðurlægingu. Fyrir þá er erfitt að stofna fjölskyldu. Samkvæmt könnun kom í ljós að aðeins 30% karlmanna í hlutastarfi var kvæntur á meðan 55% þeirra sem voru í fullri vinnu voru kvæntir.

Karlastörf mikilvæg
Í kirkjustarfi skiptir máli að reyna að fá karlmenn með, ekki bara vegna þess að þeir eru helmingur íbúanna heldur vegna þess að þeir eru mun færri í kirkjunni. Í flestum kirkjum í Japan eru konur í meiri hluta. Körlunum finnst þeir einangrast. Ef þeir þroskast ekki í trúnni getur það haft neikvæð áhrif á fjölskylduna en góð ef þeir vaxa í trúnni. Hjónabandið styrkist og jafnvægið verður meira í fjölskyldulífinu.

Leifur Sigurðsson