Kalli í Ómó Rate

Yaso.

Karl Jónas Gíslason kristniboði er nú við störf í Ómó Rate í Suðvestur-Eþíópíu. Hann hefur verið duglegur að senda fréttir af sér á fésbókina. Áhugasamir geta fylgst með starfi hans þar.

Í þessari viku hitti Kalli Yaso. Yaso er eitt þeirra barna sem talið var bölvað og átti að deyja. Gezany, öldungur í Mekane Yesus kirkjunni í Kóró, bjargaði honum. Móðir Yaso dó við fæðingu hans. Fjölskyldan leit í augu nýfædda drengsins og sagði: „Bölvun hvílir á honum. Það má sjá það í augum hans.“ Farið var með drenginn út í eyðimörkina þar sem hýenurnar sæju um hann. Þegar Gezany heyrði þetta hljóp hann eins og fætur toguðu út í eyðimörkina og fann drenginn. Núna er Yaso tólf ára. Ótti réð för þegar fjölskylda hans kastaði honum út í myrkur og dauða. Kærleikur kom honum til ljóssins og lífsins. Hann á nú kærleiksríka fjölskyldu og líf sem enginn átti von á.

 

Gamla konan.

Gömul kona bað þess árum saman að prédikari kæmi í þorpið hennar. Það gerðist fyrir tveimur árum. Kalli heimsótti hana og kirkjuna í Torongole þar sem hún býr. Laisho hefur verið að kenna fólkinu að lesa og skrifa Af Dasenets. Laisho boðar því einnig fagnaðarerindið. Nú er verið að byggja kennslustofu sem einnig má nota sem kirkju. Lestrarkennsla og kristniboð haldast í hendur.

 

 

 

Kalli heimsótti líka Areny og fjölskyldu hans í vikunni. Areny hefur verið að kenna fullorðnum að lesa og skrifa eftir námsefninu Af Dasanets. Hann boðar einnig fagnaðarerindið í Kabúsía og nágrenni. Hann og Laisho þrá að fólk heyri um Krist á sama tíma og þeir vilja að fólkið læri að lesa eigið tungumál. Báðir vinna án launa. Biðjum fyrir þeim.

 

Areny og Laisho.