Jólasálmur eftir Brorson

Mitt einatt hvarflar hjarta í húsið lága inn, /
þar fæddist barnið bjarta, hinn blíði Jesús minn, /
þar á minn hugur heima, þar hjartað verður rótt. /
Hvort mun ég mega gleyma þér, milda jólanótt? /

En orð mig óðar bresta, er um það hugsa fer, /
að lífsins ljósið mesta er lagt í jötu hér, /
að himna Drottinn hæsti, sem heilög dýrðin ber, /
svo smáður sem hinn smæsti af smælingjunum er. /

Því voru´ ei háar hallir, vor herra búnar þér
þar hlutir heimsins allir þér hlýði, skyldugt er?
Því léstu ei ljós þig hjúpa og ljóss þig vefja bönd
og heimsins kónga krjúpa og kyssa þér á hönd?

Nei, hann, sem heimsbyggð alla, á helgum dæmir stað,
ei hefur það er halla hann höfði megi að.
Og ei hann sjálfur átti hið auma stráið, sem
í nauðum nota mátti þá nótt í Betlehem.

Æ, kom þú, kæri Herra, æ, kom þú til mín inn,
mín andvörp aldrei þverra. Kom inn, kom, Jesú minn!
Í hjarta mínu hlúa, minn Herra´, eg vil að þér
og bið þig ávallt búa, minn blíði Guð, hjá mér.

H.A.Brorson, 1732 / Lárus Halldórsson

Hans Adolph Brorson (1694-1764) var danskur prestur og biskup. Hann er best þekktur fyrir jólasálma sína. Þegar hann tók við sínu fyrsta prestsembætti árið 1722 voru sálmabækur dönsku kirkjunnar þýskar og textar nær allir á þýsku. Þetta varð kveikjan að umfangsmiklu verki hans að þýða þýska sálma á dönsku en um leið orti hann sjálfur marga sálma.

Á fyrri hluta 18. aldar var heittrúarstefnan píetismi að ryðja sér til rúms. Ein aðaláhersla þeirrar stefnu var trúrækni. Þessi stefna hafði mikil áhrif á H. A. Brorson og setti mark sitt á hann, sem prest, biskup og sálmaskáld.  Hann hefur gjarnan verið nefndur sálmaskáld píetismans á Norðurlöndum.

Hann gaf út sálmahefti með þýddum sálmum sem einnig geymdu nokkra sálma eftir hann. Árið 1739 kom svo út sálmasafn sem hann kallaði „Troens rare Klenodie“ sem innihélt 282 sálma. Þriðjung þeirra hafði hann ort sjálfur og hinir voru þýddir sálmar.

Margir sálmar H. A. Brorsons hafa verið þýddir á norsku og sænsku. Einnig hafa nokkrir sálmar hans verið þýddir á íslensku. Má þar nefna jólasálminn Hin fegursta rósin er fundin.