Jesúmyndin sýnd í Voító dalnum í Eþíópíu

Íslenskir kristniboðar hófu störf í Voító dalnum í Eþíópíu fyrir tæplega þrjátíu árum. Nú er búið að talsetja Jesúmyndina, sem byggir á frásögum Lúkasarguðspjalls, á tsamakkó, tungumál fólksins í dalnum. Jesúmyndin er nú til á 1400 tungumálum.

Eftirvæntingin var mikil þegar útbúnaðinum var komið fyrir. Þriggja fermetra sýningartjald var hengt upp í tré. Sýningarvélin tengd rafgeymum var sett á lítið borð og hátölurum komið fyrir í trénu. Ekki var hægt að setja út á myndgæði eða hljóð. Við dáðumst að útbúnaðinum sem komst fyrir í hliðartösku.

Hvernig er þetta hægt?

Það var markaðsdagur í bænum Birayle þegar við komum útbúnaðnum fyrir á torginu. Enn var fólk að ganga frá áður en það færi heim. Vörubílar hlaðnir fólki og afurðum lögðu af stað í rykmekki. Markaðsdeginum var lokið. Hversu margir skyldu koma og horfa á Jesúmyndina?

Sólin settist bak við fjöllin og við gátum hafið sýninguna í rökkrinu. 40-50 manna hópur barna og fullorðinna var saman kominn af forvitni. Sumir settust en aðrir stóðu. Er á leið bættust fleiri í hópinn og að lokum voru það um hundrað manns sem horfði á myndina.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa: „Hvernig má það vera að þetta er á tsamakkó?“ Fólk var undrandi á að Jesús talaði þeirra eigin tungu. Hvernig gat hann sem var útlenskur talað svona góða tsamakkó? Aðrir útlendingar höfðu lært málið en ekki getað talað það svona reiprennandi eins og í myndinni. „Það er hreint ótrúlegt að Guð kunni tungumálið okkar?“

Boð til frelsis

Myndin endar á að fólki er boðið að taka á móti Jesú sem frelsara sínum. Þá var fólki bent á kirkjurnar í nágrenninu og að allir væru velkomnir að koma í þær ef það vildi heyra meira um Jesú.

Heillaðir áhorfendur

Næsta dag var haldið af stað með útbúnaðinn í annað þorp, nálægt Voítóánni. Þar fannst ekkert stórt tré sem hægt var að hengja sýningartjaldið upp í en við sáum þar húskofa sem hægt var að notast við. Hailu, þýðandi myndarinnar, átti tal við eigandann, gamlan mann og bað um leyfi til að nota húsið.

„Þetta er það sem þið hafið verið að vinna að fyrir okkur. Þið þurfið ekki að biðja um leyfi“, var svar gamla mannsins.

Þetta kvöld komu um sex tugir manna til að horfa á myndina. Og enn heyrðum við undrunina yfir að Jesús talaði tungumál þeirra. Við fengum líka önnur viðbrögð þetta kvöld. Í myndinni er sýnt þegar Jesús hittir manninn sem átti son haldinn illum anda. „Jesús læknar soninn“, heyrðum við sagt, „vegna þess að guðinn ykkar er svo máttugur.“

Langtíma verkefni

Það hefði verið gaman að geta sagt frá því að margir áhorfendur hefðu eignast trú á Jesú eftir að hafa horft á myndina en þó svo að það hafi ekki gerst trúum við því að myndin muni hafa mikið að segja þegar til lengri tíma er litið. Í byrjun var það undrunin yfir að heyra eigið tungumál sem skyggði á innihald myndarinnar. Næst þegar fólk horfir á myndina verður það vonandi innihaldið sem nær athyglinni. Margir hlakka til að fá að sjá myndina í þorpinu sínu.

Viljum ná til allra

Markmiðið er að sýna Jesúmyndina í öllum þorpum og þar sem fólk talar tsamakkómálið. Starfsmenn kirkjunnar geta auðveldlega tekið útbúnaðinn með sér á mótorhjólum sínum. Útbúnaðnum fylgir einfaldur sólarpanell til að hlaða rafgeyma sem eru notaðir þar sem ekki er rafmagn. Í lok september var búið að sýna myndina á tíu stöðum og oft voru yfir 200 sem komu til að horfa á hana. Biðjum þess að fólk fái meiri þekkingu á trú sinni við að horfa á myndina og að fleiri komi í guðsþjónustur.

(Heimild: nlm.no, Karen Elisabet Wittersö)