Íslenskukennslan komin í sumarfrí

Kristniboðssambandið hefur boðið útlendingum ókeypis íslenskukennslu frá haustinu 2015. Námskeiðin eru haldin í Kristniboðssalnum tvo morgna í viku. Mikill fjöldi útlendinga hefur notfært sér námskeiðin, sumir komið trúfastlega í hverri viku og aðrir komið nokkrum sinnum. Aðstæður fólks eru mismunandi, sumir fá vinnu, aðrir hefja skólanám og enn aðrir fá ekki landvistarleyfi.

Frá haustinum 2017 hafa tveir tímar verið í boði, byrjendanámskeið og námskeið fyrir lengra komna. Í vetur hefur góður hópur nemenda frá síðasta vetri mætt reglulega. Þeir koma á byrjendanámskeið í annað sinn og svo framhaldsnámskeiðið. Margir sitja bæði námskeiðin og er sá hópur orðinn mjög góður í íslensku og sannast máltækið æfingin skapar meistarann. Mikil áhersla hefur alla tíð verið að æfa talað mál. Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í talþjálfuninni. Nemendum er skipt í hópa eftir kunnáttu og fá æfingu hver við sitt hæfi.

Lögð hefur verið áhersla á að syngja á íslensku í hverjum tíma. Fræðsla um íslenska menningu og kristna trú er líka hluti af námsefninu. Boðið er upp á kaffi og með því og þá er spjallað saman um heima og geima. Margir nemendur hafa komið með bakkelsi frá sínu heimalandi og lagt á hlaðborð.

Reynt er að brydda upp á nýjungum á námskeiðunum. Á vormisseri elduðu konur frá Írak, Palestínu og Sýrlandi arabískan mat og buðu nemendum og kennurum. Það vakti mikla gleði og maturinn bragðaðist frábærlega. Þá fór hópurinn í ferð til Krýsuvíkur og skoðaði þar hverasvæðið í Seltúni. Fæstir höfðu komið þangað áður og þótti mikið til um. Að íslenskum sið var borðað nesti úti og lét hópurinn smárigningu ekki hafa áhrif á sig. Einn sjálfboðaliðinn bakaði pitsusnúða, kanelsnúða og vínarbrauð sem hvarf ofan í svanga ferðalanga. Smávegis var sungið í rútunni og er keðjusöngurinn um Lóuna sem er komin til að kveðja burt snjóinn alltaf mjög vinsæll.

Stefnt er að því að halda íslenskunámskeiðunum áfram að hausti.

Kristín Bjarnadóttir