Íslenskukennsla í Kristniboðssalnum

Kristniboðssambandið hefur boðið útlendingum ókeypis íslenskukennslu frá haustinu 2015. Námskeiðin fara fram í Kristniboðssalnum tvo morgna í viku. Boðið er upp á barnapössun á meðan á tímunum stendur. Mikill fjöldi útlendinga hefur notfært sér námskeiðin, sumir komið trúfastlega í hverri viku og aðrir komið nokkrum sinnum. Aðstæður fólks eru mismunandi, sumir fá vinnu, aðrir hefja skólanám og enn aðrir fá ekki landvistarleyfi. Til að sýna fjölbreytni nemenda má nefna að í vetur komu þeir frá eftirtöldum þjóðlöndum: Sýrlandi, Íran, Írak, Palestínu, Georgíu, Kúrdistan, Kasakstan, Moldavíu, Úkraínu, Lettlandi, Þýskalandi, Spáni, Englandi, Hollandi, Rússlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Írlandi, Rúmeníu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Kólombíu, El Salvador, Japan, Kína, Filipseyjum, Keníu, Nígeríu og Eþíópíu.

Þegar nemendur koma hafa þeir mismikla kunnáttu í íslensku og því hefur verið lögð mikil áhersla á hópvinnu þar sem hægt er að koma til móts við þarfir hvers og eins. Hópur sjálfboðaliða aðstoðar við kennsluna og eru það bæði kennarar á eftirlaunum og aðrir sem hafa áhuga á málefninu. Auk íslenskukennslunnar er reynt að fræða um íslenska menningu svo og kristna trú. Oft eru sungnir íslenskir söngvar í byrjun tímanna við miklar vinsældir. Þá er boðið upp á kaffiveitingar í hvert skipti og koma margir nemendur löngu fyrir tímann til að geta fengið sér kaffi og spjallað saman. Þá hafa nemendur einnig komið með bakkelsi frá sínu heimalandi og lagt á hlaðborð.

Mikil ánægja er meðal nemenda og koma þeir gjarnan með nýja nemendur með sér. Vonir standa til að framhald verði á íslenskukennslunni í haust. Í vetur fékk Kristniboðssambandið styrk frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Rannís til að halda námskeiðin. Einn launaður starfsmaður, kennari, sér um kennsluna og um 10-14 sjálfboðaliðar hafa hjálpað meira eða minna til í vetur. Nýir áhugasamir sjáflboðaliðar eru alltaf velkomnir að slást í hópinn.

Í spádómsbók Jesaja, 55. kafla, versi 5 standa þessi orð sem segja má að séu tímanna tákn í dag vegna hinna miklu fólksflutninga sem eiga sér stað:  Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels, því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Nýtt námskeið hefst í byrjun september.

Kristín Bjarnadóttir