Categories
Fréttir

Í heimsókn í Voitó í Eþíópíu

Kristján VoitóKristján Þór Sverrisson, kristniboði og starfsmaður Kristniboðssambandsins, er ásamt fjölskyldu sinni í Eþíópíu. Hann skrifar eftirfarandi úr heimsókn til Voitó þar sem hann starfaði á árum áður: Það var í vikunni sem leið að ég gekk fimm mínútur í brennheitri sólinni frá okkar gamla heimili í Voitó að kofanum hans Gúddabú Atschú. Mikið gladdi það mig að sjá hann hressan og skýran í kollinum enda er hann tekinn að reskjast og tæp sex ár síðan við sáumst, og ég vissi í reynd ekki hvort hann væri lífs eða liðinn. Reyndar er hann orðinn blindur á öðru og sjónin á hinu orðin mjög döpur, en kollurinn er skýr og fæturnir sterkir. Við vorum vanir að heimsækja hvor annan og fara yfir stöðu mála í Voitó-dalnum. Hann út frá sinni stöðu sem höfðingi í þorpinu og ég sem boðberi nýrrar trúar þar sem hið góða er sterkara en hið illa. Við áttum ekki samleið í trúmálum en í flestu öðru vorum við sammála. Gúddabú virtist mér um margt öðruvísi en hinir karlarnir í Voitó, t.d. minntist hann stundum á konuna sína og talaði vel um hana. Hann var klárlega í stöðu til að taka sér aðra konu en sagðist ekki hafa viljað það. Konan hans heitir Alma Hronda og er með á myndinni ásamt sonarsyni þeirra sem heitir Aike Golla. Hann sá ég síðast fyrir sjö árum þegar ég ók með hann, tveggja ára gamlan, fárveikan, langa leið á spítala. Pabbi hans, Golla, hélt á honum í fanginu og grét alla leiðina yfir syni sínum sem mér þótti þá líklegast að myndi deyja … Guð heyrir bænir og læknar kristniboðsins hafa bjargað mörgum mannslífum þar á meðal þessa litla drengs. – Guð blessi þig Gúddabú og allt þitt hús, við sjáumst vonandi aftur.