Húsin jöfnuð við jörðu

Hjónin Gísli og Nora Jónsson starfa í Búlgaríu. Nora starfar m.a. meðal Rómafólks (sígauna). Hér eru molar úr nýjasta fréttabréfi þeirra.

Haustið er komið með sínum fallegu litum og kólnandi veðri en við njótum þess að hafa ylinn innandyra. Október var erfiður, sérstaklega í Rómabúðunum. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að ryðja búðirnar án þess að leysa húsnæðisvanda íbúanna en sumir hafa búið þar í 30 ár. Stoyanka, samstarfskona okkar, hefur reynt að leita réttar íbúanna með aðstoð lögfræðings. Þegar vinnuvélar hófu niðurrif búðanna voru lögregluyfirvöldum sýndir pappírar sem þeir hunsuðu. Nora hefur starfað í búðunum í 3-4 ár og það var erfitt að horfa upp á allt eyðilagt, horfa á ungt fólk, mæður, feður og aldraða horfa á heimili sín hverfa og hafa engan stað að hverfa til núna þegar vetur konungur er handan við hornið.

Meðferðin á fólkinu er hræðileg, vonleysið algjört og erfitt var að horfa á börnin þjást. Kirkjan okkar brást vel við, útvegaði tjöld, mat og vatn. Við elduðum mat fyrir 50 manns sem Nora færði þeim. Kirkjan og Stoyanka, sem hefur eitt mörgum árum í að byggja upp samband við Rómafólkið, leita nú allra leiða til að finna framtíðarlausn fyrir fólkið.

Við lofum Drottin fyrir hugrekki Stoyönku, að standa uppi í hárinu á yfirvöldum. Við biðjum ykkur að biðja fyrir framtíðarlausn fyrir samfélagið, að starfið með börnunum og fjölskyldum þeirra geti haldið áfram.

Þau hjón, Nora og Gísli biðja um fyrirbæn. Þau senda kveðju með orðunum í Hebreabréfinu 13.20-21: Guð friðarins …. styrki yður í öllu góðu í hlýðni við vilja sinn. Láti hann allt það verða í oss sem honum er þóknanlegt fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

Hægt er að styrkja starf Noru og Gísla með fjárframlagi og fyrirbæn. Upplýsingar eru veittar á skrifstofu Kristniboðssambandsins í síma 5334900.