Hungursneyð vofir yfir í Ómó Rate

posted in: Óflokkað | 0

kalliKarl Jónas Gíslason, (Kalli) kristniboði, er nú að störfum í Ómó Rate í Suður-Eþíópíu ásamt tveimur sjálfboðaliðum, Kristínu Gyðu Guðmundsdóttur og Agli Erlingssyni. Þau hafa verið án netsambands undanfarnar vikur en í dag fréttist af þeim. Þau voru að fara til Bubua en þar voru aðeins konur og börn því karlarnir voru að leita að mat. Hungursneyð virðist vofa yfir.

Kalli skrifar: „Ég minnist ekki svona mikils hita hér áður. Hitinn í skugga fer nær aldrei undir 40 – 42 °C. Hiti inni í húsi hefur einu sinni eða tvisvar farið niður í ca. 30°C. Ryk alla daga. Aðstæður fólksins eru afar erfiðar. Allt korn að klárast. Kaupmenn koma frá hálendinu á Isuzu vörubílum og kaupa búfénað á mjög lágu verði. 100 kg hirsi kostar nú um 1.000.- birr en kostaði áður um 500.- Geit kostar nú um 250 birr var á 450! Nágrannar okkar hafa margir komið til okkar í leit að hjálp sem við getum því miður ekki veitt. Þetta er mjög erfitt. Hjartað fyllist örvæntingu. Hjálparstofnanir mega ekkert gera, ábyrgðin er öll yfirvalda. Finn kökk í hálsinum við að skrifa þetta. Okkur líður samt öllum vel. Verið öll Guði falin.“