Haraldur Ólafsson kristniboði látinn

Haraldur Ólafsson kristniboði lést sl. laugardag á 84. aldursári. Hann var sonur kristniboðanna Herborgar og Ólafs Ólafssonar sem störfuðu í Kína í 14 ár.

Eftirlfiandi kona Haraldar er Björg og eiga þau tvö börn en fjölskyldan settist að í Noregi að loknum kristniboðsstörfum í Eþíópíu á árunum 1963-1968, 1973-1976 og 1977-1979. Einnig starfaði Haraldur í Eþíópíu á 10. áratugnum og var um tíma umdæmisstjóri í Eþíópíu á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar í Noregi. Jarðarförin fer fram í Kristjanssand á morgun, 15. mars.

Haraldur starfaði mest í Neghelli í suðurhluta landsins meðal Bóranamanna og vann þrekvirki í þýðingu Biblíunnar á þeirra mál, enda mikill málamaður og lagði grunninn að ritmáli Bóranamanna sem búa syðst í Eþíópíu og nyrst í Keníu. Einnig beitti hann sér fyrir þýðingu ýmissa kristilegra rita yfir á bóranamál. Árið 2007 birti Bjarmi viðtal Kristínar Bjarnadóttur við Harald og var yfirskriftin að mörgu leyti lýsandi fyrir hugsjón Haraldar: „Talað orð gleymist en ritað orð gengur í arf,“ en að mati hans áttu allir að eiga rétt á að lesa Biblíuna á eigin móðurmáli.

Auk þýðingar-og útgáfustarfs sinnti Haraldur boðun, fræðslu og þjálfun samverkamanna innan Mekane Yesu kirkjunnar.  Er mikil hungursneyð gekk yfir landið á 8. áratugnum krafðist umfangsmikið hjálparstarf krafta Haraldar eins og margra kristniboða á þeim tíma.

Þó svo Haraldur hafi verið sendur af systur- og samstarfssamtökum SÍK, NLM í Noregi fylgdust vinir starfsins náið með þeim hjónum, enda voru það fjárhagslegar skuldbindingar sem SÍK hafði gagnvart öðrum kristniboðum og starfinu sem kom í veg fyrir að þau hjón yrðu fulltrúar Íslands og Kristniboðssambandsins. Þau heimsóttu Ísland og skrifuðu fréttir í Bjarma enda ekki annað fréttabréf um starf kristniboðsins á þeim tíma.

Drottinn blessi minningu Haraldar Ólafssonar kristniboða.