Categories
Japan

Gleðidagur í kirkjunni á Rokkóeyju í Japan

Allir í kirkjunni fögnuðu skírn Kouki Kadoya. Hér situr hann við hlið afa síns.
Allir í kirkjunni fögnuðu skírn Kouki Kadoya. Hér situr hann við hlið afa síns.

Norski kristniboðinn, Liv Bakke hefur starfað í mörg ár í Japan. Hún kom fyrst til Japans fyrir 39 árum en er nú komin á eftirlaun og flytur til Noregs.

Liv hefur starfað síðustu árin í lútersku kirkjunni á Rokkóeyju, á þeim stað sem Leifur og fjölskylda munu starfa frá og með haustinu. Liv segir margt mjög jákvætt vera að gerast í kirkjunni.

Kouki Kadoya, 17 ára piltur, var skírður í byrjun júní eftir að Liv kenndi honum grundvallaratriði kristindómsins. Fjölskylda Koukis er kristin og nú vildi hann láta skíra sig. Þá tóku eldri hjón þátt í skírnarfræðslu í vetur. Þau vilja láta skíra sig og dóttur sína í sumar eða haust. Nýi presturinn sr. Kanji mun sjá um það.

Kona sem bjó í sama húsi og Liv spurðist fyrir um kristna fræðslu fyrir ungmenni og nú tekur sonur hennar þátt í unglingastarfi kirkjunnar. Sjálf hefur hún komið nokkrum sinnum í guðsþjónustu, m.a. þegar Kouki var skírður, en hún er ekki kristin. Liv bauð henni að horfa á kvikmyndina um líf Jesú með unglingunum og þáði hún það. Hún er mjög áhugasöm að kynnast kristinni trú.

Við skírn Koukis prédikaði sr. Kanji út frá orðunum í Mattheusarguðspjalli 9.9: Þá er hann gekk þaðan sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.
Nágrannakonu Liv fannst orðin tala til sín og vill taka þátt í skírnarnámskeiði. Hlutirnir gerast hægt í Japan en Liv segist muni hugsa til fólksins í kirkjunni og biðja fyrir því. Fleiri hafa sýnt áhuga á kristindómnum og því nauðsynlegt að biðja fyrir þeim.

Eins og fyrr sagði munu Katsuko og Leifur Sigurðsson búa og starfa á Rokkóeyju. Munum eftir að biðja fyrir þeim og fólkinu sem vill kynnast kristindómnum.