Categories
Fréttir

Gjöf frá Hallgrímskirkju

St Hallgrk v Hk og Krbs 3Sunnudaginn, 24. janúar afhenti Aðalheiður Valgeirsdóttir, varaformaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju fulltrúum Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins fjármuni sem safnast hafa í messusamskotum kirkjunnar árið 2015. Í ávarpi sínu sagði Aðalheiður m.a.:

„Það var skömmu eftir síðustu aldamót að tekin var upp sá ágæti siður að hafa messusamskot í Hallgrímskirkju. Þennan sið hafa ýmsar aðrar kirkjur tekið upp. Ávallt er tilgreint hvert sé styrktarefnið. Þannig hafa verulegar fjárhæðir runnið til ýmissa verkefna úr líknarsjóðnum, en sýnu mest til Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins, meira en 2 milljónir á hverju ári síðustu 10 ár til þessara stóru verkefna.

Ég tek það fram að þetta eru frjáls framlög kirkjugesta og við í kirkjunni þökkum fyrir að hafa fengið það hlutverk að miðla þessu fé áfram til þessara verkefna. Þetta hefur ekki farið mjög hátt, en hefur skipt miklu máli. Því fannst okkur rétt að afhenda þessa fjármuni með formlegum hætti við athöfn hér í kirkjunni. Þannig kom á síðasta ári í hlut Hjálparstarfsins 3,3 milljónir króna og til kristniboðsins tæplega 800 þús.“

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar tók við gjöfinni fyrir hönd Hjálparstarfsins og Kristín Bjarnadóttir tók við gjöfinni fyrir hönd Kristniboðssambandsins. Auk fjárframlagsins tóku þau einnig við gjöf frá kirkjunni, bókinni Mínum Drottni til þakklætis, sem er saga kirkjunnar og kom út í tilefni 75 ára afmælis safnaðarins í nóvember síðastliðnum.