Gegn ofbeldi í skólum

SAT-7 ACADEMY er þáttur á Sat7 sjónvarpsstöðinni sem tekur fyrir umdeild samfélagsleg mál í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Ofbeldi í skólum er eitt þessarra mála. Í þættinum er talað gegn því viðtekna að kennarar beiti nemendur sína líkamlegum refsingum við minnstu yfirsjón. Einelti á meðal nemenda er sömuleiðis stórt vandamál sem reynt er að fræða um í þættinum.

Paul Sayah, biskup kirkjunnar í Antíokkíu, bendir í þættinum á Jesú sem fyrirmynd okkar í siðferði, mannasiðum og virðingu hvert fyrir öðru.

Markmið þáttarins er að nálgast viðfangsefnin heildrænt. Í þessu tilfelli er sérstök áhersla lögð á að ekki komi fram ásökunartónn í garð kennara. Þeim er oft gert að kenna 60-80 nemenda bekkjum og þeim virðist uppálagt að halda uppi aga með hótunum og beitingu líkamlegra refsinga. Þess vegna er lögð áhersla á að fræða um aðrar leiðir til að halda uppi aga og færð rök fyrir því að ofbeldi getur af sér ofbeldi og gerir oftast ekki annað en að auka á vandann.

Í þættinum eru útskýrð tengsl líkamlegra refsinga og hömlulauss eineltis sem víða tíðkast. Vandinn er að þrátt fyrir boðun skýrra siðferðislegra viðmiða, mannasiða, kurteisi og friðsemdar er skortur á fyrirmyndum heima fyrir. Hið almenna viðhorf er að börnum beri að refsa, hvort heldur sem er í skóla eða á heimilum; oft fyrir smávægilegar yfirsjónir. En dropinn holar steininn og við þættinum hafa borist afar jákvæð viðbrögð frá fólki sem sér að ofbeldi leysir engan vanda og kennurum sem hafa tekið upp nýjar aðferðir til að halda uppi aga.

Þannig boðar SAT-7 frið og kærleika Krists.