Fréttir frá kristniboðunum í Pókot

Fjölnir, Komole, Rosabella djákni í Kamlengorok, Loyara, Edwin, óþekktur, Eyene eiginmaður Rosabellu, Katiba sonur Eyene og fyrrverandi stríðsmaður frá Omboleon.

Kristniboðarnir Fanney Ingadóttir og Fjölnir Albertsson eru nú að störfum í nokkrar vikur í Pókot í Keníu. Fjölnir sendi þetta bréf þar sem hann segir frá ferð til Turkana, nágrannaþjóðflokks Pókot:

Ég fékk tækifæri til að heimsækja lúthersku kirkjuna í Turkana dagana 30. júni til 2 júli. Með í för voru aðstoðarbiskup (Nicholas Loyara), framkvæmdastjóri biskupsdæmisins (Edwin P.) og prédikarinn (William Komole). Við ákváðum að fara á tveimur bílum því að þeir töldu vera vöntun á mat og við ákváðum því að taka með okkur 9 sekki af maís.

Við heimsóttum fjórar kirkjur í þessari ferð. Sú fyrsta er í Turkwell. Það er kirkja sem liggur á mörkum Pókot og Turkana. Ungur maður úr kirkjunni fór með okkur til Turkana. Ég fékk að vita að hann hefði verið grimmur stríðsmaður (warrior) áður en hann varð trúaður og kom í kirkjuna. Þau sögðu að fyrst þegar við komum á þetta svæði um 2011, hefði hann verið einn af ungu mönnunum sem gengu um með hríðskotabyssu og pössuðu dýrin og fólkið. (Í bleikri skyrtu á myndinni) Komole sagði mér frá því að einn morgunn, þegar hann var á svæðinu, gekk hann niður að á með vini sínum. Þá sjá þeir skyndilega tvo Turkanamenn ekki svo langt frá. Þeir heyrðu að skotið var á þá úr hríðskotabyssum. Þeir hentu sér niður og héldu að þetta yrði þeirra síðasta þar sem þeir voru óvopnaðir. En það kom í ljós að á milli þeirra og Turkanamannana, sem skutu á þá, var einn Pókotmaður með hríðskotabysssu. Hann skaut á Turkanamennina sem hlupu í burtu og hurfu. Þeir fylgdu á eftir þeim og sáu að einn þeirra hafði fest eyrað í þyrnigrein og rifið hluta af því af. Komole var hrærður þegar hann sagði frá þessu. Ástandið er betra núna, en þetta var fyrir um fimm mánuðum og þá var ástandið mjög slæmt. Hirðar voru drepnir og dýrum stolið. Það voru líka dæmi um að ráðist var á bíla og stolið af fólki.

Söfnuðurinn í Turkwell.

Í Lokori hitti ég ekkju Peter Kaile. Hann var prestur í Turkana og lést fyrir nokkrum árum úr alnæmi. Hún er einnig með alnæmi en vegna lyfja sem hún fær gengur henni ágætlega. Ekkert af 5 börnum þeirra er smitað.

Í Kamlengorok hitti ég ekkju Achakan, Selinu. Hann dó í árás Pókotmanna á heimasvæði hans fyrir nokkrum árum. Selina á 3 börn og elur einnig upp barn systur sinnar sem er látin. Lífið gengur ágætlega, hún fær hjálp til að greiða skólagjöld barnanna.

Alice Kaile og 3 af börnum hennar.

Við heimsóttum þrjár kirkjur í Turkana. Á tveimur stöðum héldum við samkomu eða guðþjónustu. Mér hefur alltað þótt einstakt að vera á samkomum þar sem þessir tveir þjóðflokkar eru saman, syngja og deila vitnisburði. Þegar þetta á sér stað á svæðum þar sem maður veit að það hafa verið átök og fólk drepið vegna þess að það er af öðrum ættflokki, þá er stórkostlegt að upplifa að fólk geti sameinast í gleði, söng og trúarsamfélagi. Það sem sameinar er svo miklu stærra en það sem skilur að. Á þessum stundum sér maður að ávöxtur trúarinnar er friður. Það þýðir samt ekki að þeir séu lausir við áskoranir sem kristnir. Í samtölum við öldunga kirknanna kom í ljós að samhugurinn á milli kirknanna í Turkana er ekki mikill. Það er því töluverð þörf á að biskupsskrifstofan hjálpi þeim að leysa úr ágreiningi og finna leiðir sem styrkja samskipti svæðanna. Það má skipta lúthersku kirkjunni í Turkana í 5 svæði og það skortir töluvert upp á að samskiptin á milli staðanna sé eins góð og æskilegt væri.

Selina og 3 af börnum hennar ásamt systurdóttur.

Ég kveð ykkur með orðunum úr Sálmi 85, versi 11 „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.“ Þessi vers hafa talað til okkar hjónanna síðustu mánuði. Við teljum þau benda á fjóra þætti sem eru mikilvægir til að stuðla að lífsgæðum. Ef við leitumst eftir að samskipti okkar einkennist af friði, kærleika, trúfesti og réttlæti þá er það mikil blessun. Það er bæn okkar að Guð gefi kirkjunni hér visku, trú, styrk og kærleika til að skapa einhug og vera vitnisburður til annara um náð Guðs.
Kveðja Fjölnir