Fréttir frá Gísla og Noru, kristniboðum í Búlgaríu

Hér má lesa fréttabréf Noru og Gísla Jónssonar frá því í júlí. Þau starfa sem kristniboðar og ráðgjafar meðal Rómafólks í Búlgaríu

Við heilsum ykkur öllum í frelsarans nafni

Fyrst af öllu viljum við þakka fyrir áframhaldandi stuðning í bænum, skilaboðum, tölvupóstum og fjárhagslega. Við erum hjálparlaus án alls þessa. Án Drottins myndum við áorka lítils í ráðgjöfinni og byggja upp samband við skjólstæðinga og nágranna. Sumarið er komið með sól og hita þrátt fyrir að vorið hafi verið kalt og blautt þannig að við urðum að hita upp í einn mánuð meira en í meðalári.  

 

Ráðgjafastarfið

Ég Gísli er fullbókaður og hef verið það undanfarin 2 til 3 ár, og er með biðlista. Það virðist ekki vera hindrun fyrir fólk að ég geri mest af ráðgjöfinni á netinu. Fólk er að byrja að koma í eigin persónu hér úr nágrannabyggðum.

Það hefur fengið góðan hljómgrunn að við ætlum að byrja ráðgjafa námið í september og allir eru sammála um þörfina fyrir þessa þjónustu.

 

Nora nýtur þess að undirbúa námið, hvernig við þróumst frá barnæsku og til þessa dags,samband okkar við Guð og aðferðir og kenningar til að hjálpa einstaklingum og börnum til að ná því markmiði sem þau hafa sett sér. Byggja upp heilbrigð sambönd, bæði í vináttu og hjónabandinu.  

Í Bréf Páls til Rómverja 12:2 2 Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjun hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

 

Nora hefur náð góðum árangri með tungumálið sérstaklega með að spjalla við heimafólkið. Nýlega kynntist Nora Elenu eldri konu, hún hefur mætt henni stundum á göngu um þorpið. Þessi kona leit oft út fyrir að vera úrvinda af þreytu vegna þess að hún þarf að vinna allt í garðinum ein, móðir hennar og eiginmaður dóu fyrir nokkrum árum. Nýlega bauð þessi kona Noru að skoða garðinn hennar og Nora notaði tækifærið og spurði ehvort hún mætti biðja með henni. Nora útskýrði að Guð er góður Guð og Nora sagði henni að hún tryði því að Guð vildi hjálpa henni. Eftir að hafa beðið fyrir þessari ágætu konu Nora hvarf á braut en hitti hana eftir nokkra daga og hún var sem ný full af orku og þakkaði Noru fyrir bænirnar. Nora var svo ánægð að sjá að Drottinn hafi snert við þessari konu. Þetta verður enn ein vitnisburðurinn um kærleika Guðs.

Ég Gísli hef verið að undirbúa húsið einangra og laga og snyrta það sem laga þarf. Þetta gerum við svo við getum látið fara vel um þá 6  þátttakendur sem við vonumst til að byrja með í september. Ég hef mín takmörk og við réðum Rómamann (Gasko) héðan úr þorpinu til að gera eitt og annað sem ég treysti mér ekki til að gera. Hann hefur notfært hæfileika meðal frænda og annara skyldmenna úr fjölskyldunni. Þannig að hann hefur haldið öllu innan fjölskyldunnar sem er þeirra leið að hjálpa og styðja hvert annað. Hann og hans fjölskyldumeðlimir hafa unnið frábært starf og allt hefur staðist sem hann hefir lofað, svolítið nýtt fyrir okkur hér

Það var gífurleg hvatning og heiður þegar ungliðar (Young Adolfs) í Glenabbey kirkjunni okkar á Írlandi ákváðu að fara af stað með fjáröflun fyrir okkur. Þau skipulögðu 10 km hlaup/skokk/hjóla eða bara labba yfir eina helgi í júní. Það var frábær þátttaka, mest á N-Írlandi en einnig nokkrir einstaklingar erlendis, eins og í Sambíu. Það var gífurleg hvatning að sjá alla póstana á samfélagsmiðlunum þar sem fólk lét í sér heyra. Samtals safnaðist um 300.0000 ísl kr sem fer allt í að byggja upp ráðgjafanámið.

Þorpslífið er stundum verulega líflegt. Þrátt fyrir kaldara og blautara vor þá hefur það ekki haft svo neikvæð áhrif á okkur eða vöxtinn í vínberjaplöntunum sem við plöntuðum fyrir 3 árum. Þetta er fyrsta árið sem þau bera ávöxtinn, en við höfum fengið dygga aðstoð og kennslu hvernig ber að meðhöndla plönturnar frá Dimeter nágranna okkar sem er 84 ára og þjónaði sem bílstjóri í hernum allt sitt  líf.

 Annar hjálpsamur nágranni er Ivan. Hann keyrir út brauð fyrir bakarí hér í þorpinu. Hann hjálpaði Noru þegar nokkur Róma börn voru að ónáða Noru á hennar göngu um þorpið. Okkur hafði áskotnast töluvert af fötum mest fyrir börn sem við báðum Ivan að deila út eftir þörfum. Hann tjáði okkur að einn drengur hefði þegið föt frá honum, og þegar hann sagði drengnum að þetta væri frá Noru og nú þyrftu þeir að biðja og þakka Guði fyrir fötin og Noru. En drengurinn brast í grát og sagði að hann hafi ekki alltaf verið góður við Noru en Nora gæfi honum samt föt. Endilega lyftið upp Ivan og hans þrá að hjálpa þessum börnum sem fá lítinn aga og umhyggju.  

 

Takk öllsömul fyrir vináttu, umhyggju, stuðning og bænir ykkar, þetta er svo mikilvægt fyrir okkur.

Við lofum Guð fyrir…

·     Áframhaldandi bata og umbreytingu á lífi  skjólstæðinga okkar

·     Stuðning ungliðanna frá Glenabbey, þvílík blessun inn í ráðgjafanámið

·     Guðs náð og miskunn inn í líf okkar og starf

 

Biðjið með okkur fyrir…

·     Skjólstæðingi sem var nauðgað ítrekað í æsku, að Drottinn haldi áfram að styðja og lækna

·     Skjólstæðingi sem er í djúpu þunglyndi og örvæntingu, biðjum um von og lækningu

·     3 hjónum sem eru að leita sátta og sín á milli, fyrir þrautseigju og lækningu á særðum einstaklingum

·     Ivan sem er að vona að Nora komi fljótlega til að hjálpa með börnin sem koma frá brotnum fjölskyldum

·     Nágranna okkar Elenu, sem Nora bað með

·     Fyrir samböndum sérstaklega við Róma samfélagið