Fréttir af kristniboði í Malí

Sveinn Einar með fjölskyldunni. Eitt barn hefur bæst í hópinn síðan myndin var tekin.

Sveinn Einar Friðriksson Zimsen, kristniboði í Malí, sendi okkur eftirfarandi bréf:
Kæru kristniboðsvinir á Íslandi.

Það er allt gott að frétta af okkur, nú er heitasti tíminn í Malí, hitinn fer upp í 45 gráður á daginn og oftast ekki undir 30 á nóttinni. Þetta getur verið erfitt en gengur samt ágætlega.

Ég og Fredrik, samstarfsmaður minn, fórum til Bafoulabé og tókum þátt í kristilegu móti fyrir Malinkeefólkið. Um 300 kristnir, karlar og konur, voru þarna saman komin í heila viku til að fræðast og uppbyggjast í trúnni. Það var sérstaklega gleðilegt að nokkrir af þeim sem lesa Biblíuna reglulega og eru áhugasamir um kristna trú fóru með okkur. Mótið er haldið  á mismunandi stöðum á Malinkeesvæðinu á hverju ári. NLM (Norska kristniboðssambandið) tekur þátt í mótinu og fjármagnar það.

Frá páskahátíðinni.

Strax eftir mótið fórum við á árlega ráðstefnu kristniboðanna sem haldin var á Fílabeinsströndinni. Það var mjög gaman að hitta samstarfsfélaga okkar og ræða málin. Þegar við snérum heim voru komnir páskar og við héldum okkar árlegu páskahátíð í garðinum okkar og buðum vinum og yfirvöldum bæjarins. Við strengdum dúk yfir lóðina til að fá skugga, fengum lánaða stóla og pöntuðum mat. Undirbúningur hátíðarinnar einkennist alltaf af gleði og eftirvæntingu. Kristileg tónlist hljómaði úr hátalakerfinu frá því klukkan níu um morguninn og um 150 manns streymdi að. Fagnaðarerindi páskanna hljómaði, tónlist var flutt og gestir snæddu kjöt og hrísgrjón. Margir viðstaddra heyrðu páskaboðskapinn í fyrsta skipti. Hátíðin var tekin upp og spiluð í útvarpinu næsta dag svo enn fleiri fengu tækifæri á að heyra boðskapinn.

Við erum byrjuð með Alfanámskeið hér í Narena. Við erum hálfnuð með námskeiðið sem haldið er á kvöldin undir stóru tré í miðju þorpinu, á lóð sem er í eigu hjálparstofnunar sem er með verkefni í Narena. Það er fínt að það er ekki inni á lóðinni okkar eða annarra kristniboða. Námskeiðið er meira opið þarna. Tveir malískir samstarfsmenn okkar hafa hjálpað okkur með kennsluna. Þetta er búið að vera mjög gott námskeið með u.þ.b 20 þátttakendum. Samræðurnar hafa verið líflegar og margar spurningar. Eftir kvöldið þar sem við töluðum um krossfestinguna og boðskap páskanna vildu tveir verða kristnir.

Nýtt verkefni er að hefjast sem hefur að markmiði að fylla í holurnar á gömlu gullgrafarasvæði. Það er mikið um gullgröft hér í Narena og mörg svæði eyðilögð af uppgreftri og nýtast því ekki til akuryrkju. Þetta er mjög þarft og þakklátt verk.

Við erum glöð yfir því að kristniboðsvinir á Íslandi vilja fylgjast með starfinu hér í Narena.

Guð blessi ykkur.

Kær kveðja

Sveinn Einar og fjölskylda