Föstudagssklúbburinn

posted in: Heimastarf | 0

IMG_0947studagasklúbburinn, sem er nýtt barna- og æskulýðsstarf fyrir börn á aldrinum 10 til 15 ára á vegum Kristniboðssambandsins lauk vetrarstarfinu föstudaginn 22. maí. Hópurinn hittist að þessu sinni í Laugardalnum í glampandi sólkini og stillu. U.þ.b. 10 börn hafa komið saman annan hvern föstudag milli kl. 17:30 og 19 í kennslustofunni á 2. hæð á Háaleitisbraut 58-60. Samverurnar hafa verið á víxl við fjölskyldusamverur sem eru hina föstudagana í Kristniboðssalnum. Börnin syngja kristilega söngva og biðja saman áður en þau hlusta á stutta hugleiðingu eða frásögu tengda starfi kristniboðsins. Síðan er farið í leiki eða ýmis verkefni.

 

Haustið 2011 byrjuðu hjónin Helga Vilborg Sigurjónsdóttir og Kristján Þór Sverrisson, kristniboðar, fjölskyldusamverur í Kristniboðssalnum. Í upphafi voru haldnar samkomur fyrsta miðvikudag í mánuði sem hófust með mat kl. 18. Samkomurnar voru vel sóttar, oft milli 60 og 70 manns á öllum aldri. Árið 2012 var svo ákveðið að færa samverurnar yfir á annan hvern föstudaga. Helga segir að fljótlega hafi myndast ákveðinn kjarni af um 8-10 fjölskyldum sem koma reglulega. Í þessum fjölskyldum eru börn á öllum aldri og þar á meðal nokkuð stór hópur af börnum 10 ára og eldri. Helgu langaði til að meira yrði gert fyrir þennan aldurshóp, að þau fengju biblíufræðslu og fræðslu um kristniboð. Sjálf fékk hún skýra köllun til kristniboðs á unga aldri.

IMG_1026Þegar Helga og fjölskyldan kom heim frá Eþíópíu saknaði hún svona starfs meðal barna og unglinga. Börn þeirra hjóna stunduðu nám við alþjóðlegan kristilegan skóla í Eþíópíu. Þar fengu þau mikla og góða kennslu í orði Guðs. Helga bað þess að einhver vildi taka þetta starf að sér og í vetur hafa Leifur Sigurðsson, kristniboði í Japan ásamt Hörpu Vilborgu R. Schram og Helga Guðmundssyni leitt starfið. Það var sérstaklega ánægjulegt að fá Hörpu og Helga með þar sem þau ná vel til barnanna. Um markmið starfsins segir Helga að í hennar huga sé aðaltakmarkið að börnin fái ung að kynnast starfi kristniboðsins, fái köllun og hjarta fyrir því að taka virkan þátt í starfinu. Það er þannig sem við eignumst nýja kristniboðsvini. Einnig að þau fái á lifandi hátt að kynnast og tileinka sér orð Guðs og eignist þannig góðan grunn í trúarlífinu.

IMG_1193

Það er því mikilvægt að þetta nýja barna- og æskulýðsstarf nái að vaxa og eflast í framtíðinni því það getur orðið mikilvæg uppspretta endurnýjunar og nýliðunar fyrir Kristniboðssambandið. Þrátt fyrir að kristniboðið hafi ætíð átt mjög gott samstarf við þjóðkirkjuna og aðrar kristilegar hreyfingar þá hefur þörfin fyrir sjálfstætt æskulýðsstarf í nafni kristniboðsins aldrei verið meiri en nú. Reynslan af KRUNG ferðunum (kristniboðsferðir unga fólksins) hefur sýnt mikilvægi þess að kynna starf Kristniboðssambandsins á þess eigin forsendum. Margir unglingar hafa öðlast nýja sýn og skilning á þessu mikilvægu starfi. Kristniboðið stofnaði Biblíuskóla síðastliðið haust. Það er von og bæn Kristniboðssambandsins að fjölskyldu- og barnastarfið, Biblíuskólinn og KRUNG ferðirnar geti stuðlað að endurnýjun kristniboðshreyfingarinnar.