Er Japan kirkjugarður kristniboðs?

Frá Kristniboðssráðstefnu í Japan fyrr á árinu.

Leifur Sigurðsson kristniboði skrifar frá í Japan.

Í sögu kristniboðs var stundum talað um ákveðin svæði og lönd sem „kirkjugarð kristniboða“ (enska: missionary graveyard eða graveyard of missionaries). Hugtakið varð til á fyrri hluta 19. aldar og vísaði til staða, sérstaklega í Afríku þar sem margir kristniboðar létu lífið úr hitabeltissjúkdómum eða týndu lífinu í ofsóknum. Þetta voru staðir eins og Búrma, Vestur-Indland og Vestur-Afríka. Önnur svæði sem hafa verið lokuð eða hafnað fagnaðarerindinu eru lönd sem eru staðsett milli tíundu og fertugustu breiddargráðu á svæði sem teygir sig frá Marokkó til Japans, oft kallað 10/40 glugginn. Þarna má finna mörg lönd þar sem íslam er fjölmennasta trúin. Í mörgum af þessum löndum er allt kristniboð bannað af yfirvöldum eða það er mikil trúarleg, pólitísk og menningarleg andstaða gagnvart kristni.,

Margir flokka Japan sem land sem er kirkjugarður trúboða. Þótt að margir kristniboðar hafi í mörg ár varið miklum fjármunum, mannauði og tíma hafa þeir ekki haft erindi sem erfiði. Árangurinn hefur svo sannarlega látið á sér standa. Japan hefur því verið talið álíka krefjandi kristniboðsakur og íslömsk lönd. Japan hefur gengið í gegnum skipulagðar, trúarlegar ofsóknir á kristnum mönnum þar sem píslavottar voru krossfestir, en það er ekki raunin í dag. Japan er þróað land með lögfest trúfrelsi í stjórnarskránni. Það eru auðvelt að fá landvistarleyfi og starfa sem kristniboði. Í hugum flestra Japana hefur kristni mjög jákvæða ímynd. Margir háskólar og sjúkrahús voru stofnuð af kristniboðum. En á undanförnum árum hafa margir kristniboðar yfirgefið Japan fullir vonbrigða. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að Japan hafi í raun tapað tækifærinu til að taka á móti fagnaðarerindinu.

JEMA ársfundur

Fyrr á þessu ári sótti ég ársfund samtaka evangelískra kristniboðssamtaka sem starfa í Japan (JEMA). Þessi samtök samanstanda af um fjörutíu kristniboðshreyfingum og var ég þar í umboði norska kristniboðsins (NLM). Aðalræðumenn að þessu sinni voru tveir innlendir prestar sem héldu fyrirlestra um núverandi aðstæður í Miyagi og Fukuyama héruðum sem urðu mjög illa úti í jarðskjálftanum sem reið yfir Tōhoku í norður hluta Japan árið 2011. Jarðskjálftinn orsakaði flóðbylgju sem flæddi allt að 10 km inn af strandlengjunni við Tōhoku. Skjálftinn mældist yfir 9,0 á Richter og yfir tíu þúsund manns létu lífið og yfir fimmtán þúsund er saknað. Margir sem misstu aleigu sína og ástvini eiga enn um sárt að binda.

 

Miyagi  og Fukushima

Séra Yukikazu Otomo, sem er prestur baptistakirkju í Shiogama, útskýrði hvernig þessar náttúruhamfarir hafi verið tækifæri til boðunar. Það hefur alltaf verið erfiðara að boða fagnaðarerindið í dreifbýli en í þéttbýli. En það var þó sérstaklega erfitt að boða í sjávarþorpunum í Miyagi. Þetta hefur hins vegar breyst mikið í kjölfar hamfaranna. Kærleikur kirkjunnar og sú aðstoð sem kristnar kirkjur og einstaklingar veittu opnuðu hjörtu fólks á svæðinu. Margir sjálfboðaliðar lögðu hönd á plóg og hjálpuðu við að afhenda vistir og hreinsa út úr húsum. Séra Yukikazu áttaði sig fljótt á að þetta var einstakt tækifæri til að boða fagnaðarerindið. Það var vissulega mikilvægt að hjálpa öllum sem höfðu lifað af þessar hörmungar. En það var ekki síður mikilvægt að segja þeim frá kærleika Guðs. Margir hafa tekið við fagnaðarerindinu og ákveðið að fylgja Jesú, aðrir eru leitandi. Þar sem margt af þessu fólki býr á svæðum þar sem ekki eru neinar kirkjur var brugðið á það ráð að stofna heimasöfnuði eða húskirkjur. Fólk hittist í heimahúsum en það þarf ekki að hefja kirkjubyggingar. Nú hefur myndast gott samfélag og samvinna milli gamalla safnaða og nýrra heimasafnaða.

Ástandið í Fukushimahéraði er allt annað. Vegna lekans í kjarnorkuverinu voru margir sem yfirgáfu svæðið í kjölfar skjálftans. Margir prestar, sem seinna snéru tilbaka, voru þjakaðir af sektarkennd. Þeim fannst þeir hafa brugðist söfnuðum sínum. Vegna geislavirkninnar voru einnig færri sjálfboðaliðar sem lögðu leið sína til Fukushimahéraðs. Kirkjunum í Fukushima hefur heldur ekki tekist að koma á samvinnu eins og í Miyagi héraði. Margir prestar hafa látið hugfallast og sjá engin úrræði.

Kirkjuþing og kristniboðsráðstefna

Það er óneitanlega oft mjög lýjandi að starfa sem kristniboði í Japan. Oft þróast hlutirnir ekki eins og maður vill og allar breytingar ganga mjög hægt. Kristniboðum frá Noregi (NLM) og Finnlandi (FLM og FLOM) sem eru í samstarfi við Evangelísku Lútersku kirkjuna í Vestur-Japan (WJELC) hefur fækkað mjög á undaförnum árum. Það er langt á milli okkar og ekki mörg tækifæri til að hittast. Það er auðvelt að verða upptekinn af því sem um er að vera í eigin söfnuði og hver baukar í sínu horni. Þetta er ekki alltaf gott og stundum getur maður misst sjónar af heildarmyndinni. Það er mikilvægt að hafa víðan sjóndeildarhring og reyna að átta sig á því hvað Guð er að gera í Japan. Það er einnig góð hvatning og örvun að hitta aðra kristniboða, skiptast á skoðunum og fá nýjan innblástur. Í ár bauð NLM kristniboðum frá Lútersku fríkirkjunni í Noregi að taka þátt í árlegu kristniboðsráðstefnunni okkar. Þetta var 69. ráðstefnan sem NLM heldur í Japan. Það var mjög áhugavert að kynnast því sem þeir eru að fást við, en þeir fluttu nýlega alla kristniboðana til Nagoya og hafa byrjað nýtt starf þar. Við lærðum margt af þeim og fengum margar nýjar hugmyndir sem verður spennandi að prófa. Í vor var einnig árlegt kirkjuþing WJELC haldið í Okayama. Núverandi forysta var endurvalin. Séra Nagata Rei var endurvalinn til tveggja ára sem forseti kirkjunnar. Hann hefur mikla hugsjón að ná til unga fólksins í Japan.

Fyrirbænarefni

Biðjið fyrir prestinum sem ég starfa með, séra Hirano, sem missti nýlega bróður sinn úr krabbameini. Nú hefur hann sjálfur greinst með krabbamein og er í meðferð.

Biðjið fyrir æskulýðsstarfinu hér á Rokkóeyju. Hópurinn er að breytast, eldri krakkarnir eru að byrja í háskólanámi eða vinnu og nýir menntskælingar að bætast í hópinn.

Biðjið fyrir karlahópnum í kirkjunni. Biðjið þess að karlarnir geti gefið sér tíma til að hittast, biðja saman og lesa í Biblíunni.

Biðjið fyrir börnunum okkar, Hannesi, Lilju og Elínu.

Biðjið fyrir Japan.

Með kveðju til kristniboðsvina

Leifur Sigurðsson

Þessi grein birtist í 2. tbl. Kristniboðsfrétta 2018.