Bók um flóttamenn

posted in: Fréttir, Heimastarf | 0

Bók dr. Kjartans Jónssonar, sóknarprests, kristniboða m.m. um flóttamenn er er komin út. Í bókinni fjallar höfundur um uppruna flóttamanna, hvaðan þeir koma og hvers vegna þeir leggja á sig langt ferðalag út í óvissuna. Hann fer yfir helstu alþjóðasáttmála, lög og reglugerðir um þennan málaflokk. Þá rekur hann hvað Biblían segir um flóttamenn og gestkomandi – og þátt flóttamanna í útbreiðslu kristninnar. Síðan fjallar hann um fordóma og ótta fólks, menningarmun og spyr hvort flóttamenn séu ógn við kristnina. Einn kafli fjallar um hvað ýmsar kirkjur og kristileg samtök á Vesturlöndum gera fyrir flóttamenn, þar á meðal hér á landi. Þeim kafla lýkur með tillögu um stefnumótun Þjóðkirkjunnar í málum fólks á flótta, hælisleitenda og innflytjenda. Lokakaflinn er guðfræðiþankar. Bókin er tæpar 200 blaðsíður með myndum, kortum og heimildaskrá. Salt ehf, útgáfufélag í eigu SÍK gefur bókina út sem er seld á kynningarverði, kr. 3.000 til febrúarloka á skrifstofu SÍK, Basarnum og vefsíðunni saltforlag.is.