Categories
Fréttir

Beðið eftir fagnaðarerindinu

Moldarkirkja í Pókot.
Moldarkirkja í Pókot.

Skúli Svavarsson og Kjellrún Langdal eru við störf í Pókot í Keníu. Þau búa á Fræðslumiðstöðinni í Kapengúría. Skúli sendir okkur kveðju og skrifar m.a.: Aðalverkefnið mitt hefur verið kennsla nemendanna á prékikaranámskeiði. Það er alltaf jafn gaman að kenna þegar nemendur eru áhugasamir og fylgjast vel með því sem verið er að kenna.

Í síðustu viku var ég á fundi til að ræða um boðunar- og fræðslustarf á nýjum stöðum, þ. e. kristniboð þar sem fólkið hefur ekki fengið að heyra um frelsarann sinn. Þetta fólk þrábiður leiðtoga kirkjunnar um að senda þeim prédikara sem geti sagt þeim frá Guði. Það eru tugir staða sem biðja um þessa hjálp. Því miður nægja þeir pengingar sem kirkjan hefur til ráðstöfunar ekki nema til 4ra nýrra staða. Hinir verða að biða. Sumir hafa þegar beðið lengi. Það er ekki auðvelt að horfa upp á þetta.

Á sunnudaginn var ég við guðsþjónustu í Mutua sem er í um 40 km fjarlægð frá stöðinni í Kapengúría. Það voru um 80 manns í moldarkirkjunni. Hún var troðfull. Fólkið tók þátt í guðsþjónustunni af lífi og sál. Kröftugur söngur, góðir vitnisburðir og margraddaður kórsöngur. Það eru ekki nema 4-5 ár síðan byrjað var að starfa í Mutua. Fólkið var svo ánægt með guðsþjónustuna að það vildi helst ekki að ég færi strax heim að lokinni guðsþjónustunni. Og þegar ég fór sagðist það ekki trúa öðru en að ég kæmi til þeirra fljótt aftur.

Bestu kveðjur til kristniboðsvina

Skúli og Kjellrún