Bænaákall frá starfsfólki Sat-7 í Egyptalandi

posted in: Fréttir | 0
Farid Samir.
Farid Samir.

Laugardaginn 10. október sl. réðust fulltrúar egypskra yfirvalda inn í kvikmyndaver Sat-7 í Kaíró með heimild til húsleitar. Kvikmyndatökuvélar voru gerðar upptækar sem og  tölvubúnaður til myndvinnslu. Yfirmaðurinn, Farid Samir, var handtekinn og færður til sex klukkustunda langrar yfirheyrslu áður en  hann var aftur látinn laus. Honum hefur nú verið birt ákæra í fjórum liðum sem snýr að rekstri  sjónvarpsútsendinga í gegnum gervihnött án tilskilinna leyfa. Það sem yfirvöld kjósa að líta fram hjá er að gervihnattaútsendingarnar eiga sér stað í öðru landi og öll tilskilin leyfi til staðar. Kvikmyndaverið í Kaíró er ekki annað en framleiðslustaður sjónvarpsefnis og sem slíkt með öll tilskilin leyfi.

Daginn eftir, þ.e. síðastliðinn sunnudag, var málið kynnt saksóknara sem á næstu dögum tekur ákvörðun um hvort ákærunum skuli haldið til streitu og efnt verði til langdreginna og kostnaðarsamra réttarhalda.

Meðan á þessu stendur er búnaður Sat-7 í höndum yfirvalda og starfsemin öll í lamasessi.

Öll starfsemi Sat-7 í Egyptalandi er felld inn í leyfi og samninga koptísku kirkjunnar við yfirvöld þar í landi. En markmið Sat-7 er að þjónusta allar kirkjudeildir.

Starfsfólk Sat-7 í Egyptalandi.
Starfsfólk Sat-7 í Egyptalandi.

Þrátt fyrir erfiða tíma styrkjast egypskir starfsmenn Sat-7 í kærleika og stuðningi sem þeir finna frá fólki hvaðanæva að úr heiminum. Farid Samir sendi frá sér eftirfarandi bænaákall: „Biðjið fyrir þjónustunni sem við veitum, að við getum haldið áfram að færa fólkinu okkar fagnaðarerindið um Jesú Krist.“