Átta skólastofur brátt tilbúnar

Verkefnið „Menntun á jaðarsvæðum“ í Keníu gengur vel

Í fyrrahaust samþykkti Utanríkisráðuneytið að styrkja byggingu átta skólastofa við fjóra grunnskóla, tvær við hvern, á jaðarsvæðum í Pókot- og Túrkanasýslum í norðvesturhluta Keníu. Skólarnir eru úr alfaraleið og skólastarfið átt erfitt uppdráttar. Framlag ráðuneytisins voru 8 milljónir, framlag Kristniboðssambandsins 1,3 milljónir og reiknað framlag heimamanna fyrir efni og vinnu tæpar 2 milljónir.

Töf varð á að framkvæmdir hæfust meðan verið var að ljúka við, gera upp og taka út verkefni ársins á undan, þegar byggt var við tvo framhaldsskóla. Bygging skólastofanna hefur gengið mjög vel og í júnílok var að mestu búið að reisa veggi. Nú er verið að setja á þak á húsin og þá er eftir frágangur glugga og dyra, pússningar- og málningarvinna. Allt útlit er fyrir að verkinu ljúki fyrir áramótin. Kennarar skólanna eru ráðnir af ríkinu og því er rekstur þeirra að mestu sjálfbær.

Með þessum kennslustofum batnar aðstaðan til náms til muna og reiknað er með að aðsókn að skólunum aukist og námsárangur batni. Er það forsenda þess að nemendurnir geti haldið áfram í iðnskóla eða framhaldsskóla og þaðan í háskóla.

Heimamenn þakka myndarlegan stuðning frá Íslandi  og er sérstaklega ánægjulegt að geta tekið þátt í að efla menntun þar sem skólastarf hefur átt erfitt uppdráttar. Með þessum skólum er lóð lagt á vogarskálarnar í því að ná 4. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en það felur í sér menntun fyrir alla. Íslendingar stefna að þessu markmiði og einkum undirmarkmiðunum sem segja: „Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli, án endurgjalds, til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun. Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og tekið þátt í frumkvöðlastarfi.“ Einnig er kveðið á um að bæta aðstöðu til menntunar og að menntuðum og hæfum kennurum fjölgi. (https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=b4fcb683-900e-11e8-942a-005056bc4d74)

Ragnar Gunnarsson