Annasamt haust hjá Leifi í Japan

Kristniboðsráðstefna.   

 

Allir kristniboðarnir (NLM, FLM, FLOM, og SÍK) sem starfa innan Lúthersku kirkjudeildarinnar í Vestur-Japan (WJELC) fengu fækifæri til að fara á kristniboðsráðstefnu sem Japan Church Planting Institute (CPI) heldur á tveggja ára fresti. Þessar ráðstefnur eru haldnar til að stuðla að boðunarstafi í Japan. Þetta er samvinnuverkefni milli kristniboða frá ýmsum löndum og innlendra leiðtoga frá evangelísku söfnuðunum í Japan. Þetta var fjölmennasta ráðstefnan sem samtökin hafa haldið hingað til með yfir 600 þátttakendum. Það var mjög gott að fá tækifæri til að hitta og kynnast fólki sem starfar á öðrum svæðum í Japan og heyra um starf þeirra. Tveir megin þræðir ráðstefnunnar voru máttur bænarinnar og mikilvægi fræðslu og samfélags í boðurnarstarfinu. Aðalræðumaður ráðstefnurnar Joshua Harris frá Bandaríkjunum var með kjarngóða og uppbyggilega biblíufræðslu. Það var uppörvandi að hlusta á hann deila reynslu sinni af safnaðarstarfi í Bandaríkjunum.

Tónleikar

Um miðjan október voru tónleikar í kirkjunni. Miki Ozawa, sem starfar fyrir finnsk Evangelísk Lúthersk Samtök (LEAF) í Tókýó, spilaði á kantele sem er finnskt alþýðuhljóðfæri og líkist íslensku langspili (en án boga). Upprunalega var kantele með 5 strengi en nýrri útgáfur eru með allt að 32 strengjum. Tónleikarnir voru mjög vel sóttir enda hafa Japanir mikinn áhuga á Finnlandi og finnskri menningu. Miki var með góðan og skýran vitnisburð á milli þess sem hún lék tónverk af fingrum fram. Fyrr í sumar kom finnsk gospel sveit (Mikko Goes to Heaven) og hélt tónleika fyrir æskulýðsstafið í kirkjunni.

Spirit 519

Sömu helgi í október var sameiginleg lofgjörðarsamvera fyrir æskulýðsstarfið í Kobe. Að þessu sinni hittumst við í Aotani kirkjunni sem er ein af stærstu kirkjunum okkar á Kansaí svæðinu. En innblásturinn af þessum lofgjörðarsamverum kemur úr bréfi Páls til Efesusmanna, 5. kafla, versi 19: „ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta“. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir unglingana í kirkjunum okkar að fá tækifæri til að hitta unglinga úr öðrum söfnuðum. Margir söfnuðir hafa ekkert æskulýðsstarf og hjá öðrum er það ekki stórt í sniðum.

Siðaskiptanna minnst

Í lok október voru mikil hátíðarhöld þegar 500 ára afmæli siðbótar Marteins Lúthers var minnst. Sérstök guðsþjónusta í tilefni dagsins var haldin í Aotani þar sem einnig var haldið upp á 60 ára afmæli prestaskólans í Kobe (Kobe Lutheran Theological Seminary – KLTS). Gestir frá Noregi komu og héldu hátíðarræður og Lúthersku kirkjurnar í Kobe tjölduðu öllu sem til var til að afmælishátíðin yrði sem veglegust. Sameiginlegur kór úr ýmsum söfnuðum flutti klassísk verk eftir Back og Lúther við fagmannlegan undirleik tónlistarfólks. Messuformið minnti á það sem við höfum heima á Íslandi. Þrátt fyrir vont veður og storm þá var kirkjan þéttskipuð og dagskráin full af tónlist og lofgjörð.

 

Leifur Sigurðsson og fjölskylda
1-4-123-904 Koyocho-naka,
Higashinada-ku,
Kobe-shi, 658-0032
Japan