Andlát: Jóhannes Ólafsson kristniboði og læknir

Jóhannes Ólafsson, kristniboði og læknir, lést Í Noregi í gær 93 ára að aldri. Jóhannes ól æskuárin í Kína, sonur kristniboðanna Herborgar og Ólafs Ólafssonar. Hann hélt til starfa á vegum Kristniboðssambandsins sem kristniboði og læknir í Eþíópíu ásamt eiginkonu sinni, Áslaugu Johnsen hjúkrunarfræðingi árið 1960 og störfuðu þau þar til ársins 1981 en Jóhannes fór margar ferðir og starfaði í Eþíópíu eftir það.

Jóhannes gegndi starfi læknis víða um landið á sjúkrahúsum sem samstarfssamtök SÍK, Norska kristniboðssambandið, höfðu byggt upp, sum með fjármagni frá norsku þróunarhjálpinni, NORAD. Fyrstu árin voru þau hjónin í Gidole, skammt frá Konsó. SÍK og íslenskir kristniboðar tóku verulegan þátt í starfi sjúkrahússins með fjárframlögum og starfi þeirra hjóna. Með störfum sínum bjargaði Jóhannes ótal mannslífum og linaði þjáningar fólks með skurðaðgerðum og annarri meðferð, oft við afar frumstæðar aðstæður. Jóhannes sinnti einnig fræðslu og þjálfun og tók virkan þátt í uppbyggingu heilsugæslu landsins. Hann gegndi að beiðni yfirvalda starfi fylkislæknis í Sídamó í tvö ár. Starfið fólst mikið í ferðalögum um fylkið til eftirlits og ráðgjafar. Það er ekki síst vegna Jóhannesar sem hlutur íslensks kristniboðs í heilbrigðisþjónustu Eþíópíu var mikill á starfsárum hans.

Að loknum starfstíma þeirra hjóna settust þau að í Noregi af persónulegum ástæðum. Áslaug lést árið 1986. Jóhannes kvæntist aftur eftirlifandi eiginkonu sinni, Kari Bø.

Jóhannes naut virðingar hvar sem hann fór og starfaði. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar konunglegu norsku heiðursorðu árið 2014 fyrir störf sín í Eþíópíu.

Kristniboðsvinir þakka trúfesti, elju og hógværð Jóhannesar sem var dýrmæt fyrirmynd og góður vitnisburður um kærleika Drottins. „Lánsamur er sá sem sýnir nauðstöddum miskunn“ ( Orðskviðirnir 14.21).