Af götu í skóla

Kristniboðssambandið styður fátæk börn í Addis Abeba með hjálp margra einstaklinga sem gefa mánaðarlega til verkefnisins. Verkefnið kallast Af götu í skóla og felst í því að hjálpa börnum og fjölskyldum þeirra til sjálfshjálpar. Samtökin My sisters (Systur mínar) sjá um verkefnið. Nýlega barst bréf frá Lisbeth Guren, sem verið hefur sjálfboðaliði hjá samtökunum einn dag í viku. Hún sendir stuðningsfólki bréf þar sem hún segir m.a. að þeir sem styðja starfið geti verið þess fullvissir um að hver króna sé vel notuð fyrir fátækar mæður og börn þeirra. Hér koma molar úr bréfi Lisbethar.

Starfsfólk samtakanna er duglegt og leiðbeinir ungum einstæðum mæðrum. Fjögur dagheimili eru starfrækt með 84 börnum. Börnin fá umhyggju, hrein föt, leik og söng og næringarríkan mat. Félagsráðgjafar samtakanna velja þau börn sem mest þurfa á hjálp að halda. Fötluð börn og sjúkar mæður eru í forgangi. Ekki er gerður greinarmunur á fólki eftir trú þess. Samtökin hafa afar gott orð á sér í borginni. Heilsugæsla samtakanna er mikið notuð, mæður sitja í röðum á biðstofunni og rúmlega tvö þúsund sjúklingar fá ókeypis lyf. Það er gæfa fátækra mæðra að vita að þær geta sótt sér læknishjálp og fengið lyf handa sér og börnum sínum.

Tveir hjúkrunarfræðingar eru í heimaþjónustu og hlynna að þeim veikustu. Og aðrir eru með fræðslu um heilsu, hreinlæti og barneignir.

Menntun er lykill að betra lífi. Hægt er að sækja sjö mánaða námskeið hjá samtökunum og læra hárgreiðslu eða umönnun barna á leikskólum. 70-80 konur útskrifast árlega og allar hafa fengið vinnu og geta orðið fjárhagslega sjálfstæðar.

220 fjölskyldur njóta stuðnings Af götu í skóla. Einstæðar mæður eiga erfitt með að framfleyta fjölskyldu sinni en vilja veita börnum sínum góða æsku. Það eru afar þakklátar mæður sem skilja börn sín eftir í umsjá starfsfólks dagheimilanna um leið og þær fara í atvinnuleit sem oft er daglaunavinna við þvotta, sölu grænmetis eða kaffis, þrif á heimilum, handlangarastarf á byggingarlóðum eða sópa götur. Segja má að starf samtakanna sé framlengdur armur Drottins til handa þeim fátækustu af fátækum.

Að lokum hvetur Lisbeth fólk til að vera með og segir starfið bera mikinn ávöxt. Hún þakkar einnig þeim sem gefa nú þegar. Íslendingar geta tekið þátt í verkefninu og styrkt eitt barn með mánaðarlegu framlagi, t.d. með því að láta draga af greiðsluskortinu sínu. Það kostar kr. 3.500 að styrkja eitt barn og fjölskyldu þess mánaðarlega. Þeir sem vilja vera með geta hringt á skrifstofu Kristniboðssambandsins í s. 5334900 eða sent tölvupóst á sik@sik.is.