Af götu í skóla

Marit Bakke stofnandi samtakanna My sisters í Addis Abeba skrifar þetta fréttabréf. Marit var í heimsókn á Íslandi í sumar og sagði m.a. frá starfinu í Addis á samkomu í Kristniboðssalnum. Margir einstaklingar styðja verkefnið Af götu í skóla með mánaðarlegu framlagi sem Kristniboðssambandið kemur til skila.

Kæru vinir samtakanna My Sisters (Systur mínar)

Ég er nýkomin aftur til Noregs eftir tveggja vikna heimsókn hjá My Sisters. Það er gott og alltaf áhugavert og spennandi að fara í heimsókn og taka þátt í starfi samtakanna. Tvær vikur eru fljótar að líða en það er samt nægur tími til að ræða við starfsfólkið um áherslur í starfinu og að hlusta eftir áhyggjum þess og gleði. Einnig gefst tækifæri til að kynnast skjólstæðingum My Sisters og sjá hvernig þeim er mætt með alúð og vinsemd. Sérstaka gleði vakti hjá mér að starfsfólkið virðist muna nöfn flestra skjólstæðinga og heilsar þeim þannig. Að vera hlýlega heilsað með nafni skiptir bágstatt fólk miklu máli.

Það er mikið að gera. Ég fæ afnot af pínulítlu herbergi og vakna eldsnemma þegar fyrstu mæðurnar koma með börnin sín í dagvistun. Mæðurnar spjalla og börnin veina þegar þeim er þvegið hátt og lágt, úr ægilega köldu vatni. En eftir baðið fara börnin í hrein föt og gleðin tekur völdin á nýjan leik. Hjá My sisters eru um það bil 80 börn í dagvistun á fjórum dagheimilum.

Ástæða heimsóknar minnar að þessu sinni var í sjálfu sér ekkert gleðiefni. Síðastliðin ár hefur söfnunarfé frá Noregi (og Íslandi) ekki náð að dekka rekstrarkostnaðinn og til að brúa bilið hefur verið tekið úr varasjóði samtakanna, sem klárast á næstu tveimur árum ef ekki rætist úr. Skilaboð mín til stjórnenda voru að fara í gegnum alla útgjaldaliði og finna hvar hugsanlega mætti spara. Ekki auðvelt verkefni í rekstri samtaka þar sem ávallt hefur verið gætt ýtrasta aðhalds. En starfsfólkið skilur alvöru málsins og við fundum nokkra liði þar sem hægt var að spara.

Fyrirséð er fækkun á börnum sem við getum ekki tekið á móti. Viðmiðið verður nú að taka einungis við börnum einstæðra foreldra sem glíma við sjúkdóma eða einhvers konar fötlun. Í dag eru flest börnin, börn einstæðra mæðra sem My Sisters veitir starfsþjálfun og almenna uppfræðslu. Yfirleitt er um þriggja ára nám að ræða og að því loknu hefur langflestum gengið vel að fá vinnu eða hefja eigin rekstur. Breytingin leiðir til þess að þeim fjölgar sem þurfa aðstoð en fá ekki. Dagheimilin og starfsþjálfun er og verður þungamiðja starfsins.

Við þurfum því miður að leggja af unglingastarf og aðstoð við heimanám. Við vonum samt að það sé aðeins tímabundin ráðstöfun og að til komi styrkur til að halda þessu áfram. Stefnan er að „markaðssetja“ okkur aðeins betur á næstu misserum og reyna að ná til fleiri stuðningsaðila.

Við erum svo lánsöm að hafa fengið til okkar sjálfboðaliða, Lisbeth Guren, sem er búsett í Addis Abeba. Hún kemur til með að miðla fréttum af starfinu, gleði og sorg. Við vonumst til að fréttirnar nái til nýrra stuðningsaðila. Okkur er ljóst að neyðin er víða í heiminum mikil og Eþíópía fær ekki sömu athygli og áður. Eþíópíska hagkerfið er nú um stundir á meðal þeirra sem vaxa hraðast í heiminum. Fyrir meðalmanninn þýðir það þó lítið annað en að allt hækkar í verði og húsaleiga verður mörgum ofviða. Það eru hinir fátæku sem bera hagvöxtinn á herðum sér. Það er hægt að fá vinnu en ekki ef þú hefur ekki gengið í skóla eða glímir við einhvers konar fötlun.

Annað markmið heimsóknarinnar var að gefa grænt ljós á nýja og löngu tímabæra byggingu fyrir fræðslustarfið okkar. Þetta finnst sjálfsagt mörgum skjóta skökku við að ráðast í byggingaframkvæmdir á sama tíma og verið er að skera niður. Staðreyndin er sú að ef við ætlum að halda áfram með starfið í núverandi mynd og vonandi stækka það komumst við ekki hjá því að byggja. Undirbúningur að þessu hefur staðið yfir í mörg ár og sérstakar safnanir verið haldnar. Nýja byggingin mun enn fremur bjóða upp á ýmsa möguleika til tekjuöflunar.

Að lokum koma gleðifréttir. Í mörg ár höfum við styrkt u.þ.b. 50 fósturfjölskyldur sem hafa tekið að sér í kringum 70 börn. Við höfum styrkt þessi börn til náms og nú þegar mörg þeirra hafa náð fullorðinsaldri kemur í ljós að fimm hafa lært til kennara og starfa í einkaskólum, einn er lögregluþjónn, þrír matreiðslumeistarar, fimm hafa lokið námi á sviði hagfræða og viðskipta og starfa í bönkum og stjórnsýslu, einn er þotuflugmaður, annar verkfræðingur, tvö lesa lögfræði og þrjú  eru um það bil að ljúka námi í læknisfræði til viðbótar við þann sem hefur nú þegar lokið því námi með hæstu einkunnum og starfar sem læknir við góðan orðstír.

Við þökkum Guði fyrir þennan góða ávöxt starfsins. Samtökin og starfsmenn þeirra fara þess á leit við ykkur kæru systkin að þið styrkið áfram My Sisters og fáið líka aðra til þess. Þetta er dropi í hafið en hann skiptir öllu máli fyrir þá sem njóta góðs af.

Með blessunaróskum,

Marit Bakke