Af götu í skóla

posted in: Óflokkað | 0

Af götu í skóla1Karl Jónas Gíslason kristniboði er nú við störf í Eþíópíu ásamt sjálfboðaliðum. Páll Ágúst Þórarinsson skrifaði eftirfarandi eftir heimsókn til samtakanna My sisters í Addis Abeba.

Við heimsóttum samtökin My sisters en Kristniboðssambandið er styrktaraðili þeirra. My sisters eru samtök sem sinna ýmsum verkefnum í nærsamfélagi sínu. Þau verkefni eru margbreytileg en snúa aðallega að börnum og mæðrum þeirra.

Þegar við keyrðum um hverfið í leit að samtökunum spurðum við til vegar og þekktu allir My sisters. Þar tók á móti okkur Sisay Tulu sem er umsjónarmaður daglegs reksturs. Hann bauð okkur inn á skrifstofu forstöðukonunnar sem var ekki við en það þykir merkilegt að konur stýri samtökum hér. Hann leiddi okkur í gegnum starfið sem er afar mikilvægt og vel unnið. Það snýr að því að aðstoða fátækar mæður, ungmenni og börn sem búa við erfiðar aðstæður. Þjónusta þeirra er fjölbreytt og er allt frá daggæslu fyrir börn yfir í grunnheilbrigðisþjónustu. Nýjasta verkefni þeirra er forvarnarfræðsla fyrir ungmenni en slík fræðsla er mjög sjaldséð hér í Eþíópíu.

Framlagi Kristniboðssambandsins er vel varið hjá My sisters þar sem gleði og umhyggja er augljóslega við völd þrátt fyrir flókin verkefni. Starfið er vandað og undirstrikast það með verðlaunum sem þau hlutu frá borgarstjórn Addis. Við nutum heimsóknarinnar og er ætlunin að heimsækja samtökin aftur í nóvember þegar við komum frá Suður-Ómó.

PÁÞ