Vitnisburður úr stríðinu í Sýrlandi

„Guð er ætíð með okkur“

Shamiram, sýrlenskur flóttamaður, flutti vitnisburð sinn á Sat-7 sjónvarpsstöðinni. Fjölskylda hennar varð vitni að miklum hryllingi, bjó við sára fátækt en lifði af árásir á Aleppó. Allan tímann varðveitti Shamiram trúna.

Áður en stríðið skall á gekk allt vel, einnig í upphafi stríðsins. „Líf okkar var nokkuð eðlilegt þegar við bjuggum í Aleppó í byrjun stríðsins.“ En svo var friðurinn úti og árásir hófust á hana og fjölskyldu hennar.

„Engin orð ná að lýsa þeim….“ hvíslaði Shamiram hljóðlega í þætti sem kallast Nýtt kvöld. Markmið þáttarins er að vitnisburðir eins og hennar geti hjálpað konum sem búa við vonlausar aðstæður. Með því að segja frá reynslu sinni og áhrifum stríðsins á líf sitt væntir Shamiram að konur í Mið-Austurlöndum eignist nýja von.

Leit að von

Þegar styrjöldin náði til okkar sáum við hryllilega, ólýsanlega hluti sem slá öllu við sem sýnt er í sjónvarpi eða kvikmyndum. Shamiram og fjölskylda hennar horfði á atburði í eigin garði sem um vísindaskáldskap væri að ræða. Álagið vegna árása, grimmilegra morða og ógna af pyntingum hafði mikil áhrif á fjölskylduna. Svo mikil að húsbóndinn fékk hjartaáfall árið 2011. Eftir að hafa legið í dái í tuttugu daga lést hann.

Hann hafði séð fyrir fjölskyldunni og óhjákvæmilega var þeim nú vandi á höndum. „En, enn var von því Guð hjálpaði okkur,“ sagði Shamiram. Ástandið átti eftir að versna þegar sonur hennar og dóttir gátu ekki lengur farið til vinnu vegna stöðugra sprengjuárása. En vonin slokknaði ekki. „Guð bjargaði okkur á ótrúlegan hátt aftur og aftur á sama tíma og ógæfan skall á öðrum.

Þegar hinir hrottafengnu og miskunnarlausu hryðjuverkamenn, Al-Nusra Front, hófu innreið sína í götuna sem Shamiram og fjölskylda hennar bjó, var enn von. Það virtist enginn geta stöðvað för þeirra í átt að heimili Shamiram. En hún treysti Guði. „Ég fann frið. Ég útbjó morgunmat og hellti upp á könnuna og bað son minn og dóttur að koma að borða. Þau voru undrandi. Stuttu seinna kom sýrlenski herinn á vettvang og barðist allan daginn við Al-Nursra Front. Við horfðum á bardagann. Drottinn bjargaði okkur.“

Hættuför frá Sýrlandi

Þegar ástandið versnaði ákvað Shamiram að flýja Sýrland. Þrátt fyrir að ferðin væri mikil hættuför vildi Shamiram leita að betra lífi fyrir sig og fjölskylduna í Egyptalandi. „Flugskeytaárásir, leyniskyttur og loftárásir urðu á vegi okkar. En samt var von. Drottinn verndaði okkur. Ég var hrædd en bað allan tímann sem við ókum í rútunni. Það var kraftaverk að við náðum heil á húfi til Egyptalands. Fólk trúði ekki að við hefðum lifað af þessa hættuför um vegi Sýrlands.“

Shamiram og fjölskylda hennar dvelja nú í friði og reyna að aðlagast nýjum aðsstæðum í Egyptalandi. Vegna þess að hún vill segja sögu sína á Sat-7 sjónvarpsstöðinni hafa margar konur öðlast nýja von þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

(Heimild: Sat7.org)