Utanríkisráðuneytið styrkir byggingu 8 kennslustofa í Keníu

Í dag var undirritaður samningur milli Utanríkisráðuneytisins og Kristniboðssambandsins (SÍK) um þátttöku þess fyrrnefnda í verkefninu „Menntun á jaðarsvæðum“. Ætlunin er að byggja tvær kennslustofur við þrjá grunnskóla í Pókotsýslu og tvær við einn skóla í Turkanasýslu, alls átta talsins. Skólarnir eru úr alfaraleið og eiga þessar nýju skólastofur að bæta úr brýnni þörf og þannig bæta skólastarfið og þátttöku nemenda með minna brottfalli en verið hefur. Framlag ráðuneytisins er 8 milljónir en framlag SÍK og heimamanna rúmar 2 milljónir.

Myndin er af Ragnari Gunnarssyni framkvæmdastjóra Kristniboðssambandsins og Ágústi Má Ágústssyni, sérfræðingi á þróunarsamvinnuskrifstofu Utanríkisráðuneytisins með undirritað skjalið fyrir framan vegg með Heimsmarkmiðum SÞ. Fjórða markmiðið er einmitt „Menntun fyrir alla“.