Sumargjöf til kristniboðsins

posted in: Óflokkað | 0

Vorið og sumarið er tími vaxtar og grósku. Þó svo aðstæður séu allt aðrar í Afríku er rigningin lífgjafi sem umbreytir ásýnd landsins á örfáum dögum með tilheyrandi ilmi, sem getur minnt á birkiilminn í rigningu á Íslandi. En gróskan er víðar en í náttúrunni. Við sjáum hana í kristniboðsstarfinu.

Til þess að kristniboðsstarfið vaxi og gróskan haldi áfram þarf einkum tvennt: Fyrirbæn og fjármuni. Þess vegna hvetjum við áskrifendur Kristniboðsfrétta til að staldra við og spyrja sig: Hvað get ég, sem hef notið svo margs góðs, lagt af mörkum til að efla kristniboðsstarfið? – nú þegar gróðurinn allur tekur við sér.

Eins og áður er þörfin mikil og verkefnin ótalmörg sem á okkur kalla eins og Kristniboðsfréttir minna okkur stöðuglega á. Við þökkum fyrirfram fyrir gjafir ykkar, þið sem svarið kallinu játandi. Megi svo gróska sumarsins minna okkur öll á kærleika og blessun Drottins sem hann vill fá að auðsýna okkur öllum og reyndar sem flestum og sem víðast.

Með sumarkveðju,

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri SÍK