Starfið í Japan – Leifur Sigurðsson skrifar

Leifur fyrir utan kirkjuna á Rokkóeyju.

Vorið í Japan er alltaf erilsamur tími. Margir eru á faraldsfæti, starfsmenn stórfyrirtækja og fjölskyldur þeirra þurfa oft að flytja. Enda markar apríl upphaf nýs starfsárs fyrirtækja og upphaf nýs skólaárs. Þetta er einnig erilsamur tími hjá söfnuðunum í Lúthersku kirkjudeildinni í Vestur-Japan (WJELC). Hver söfnuður heldur ársfund í mars, þar sem starfsemi síðasta árs er rædd og metin. Meðlimir ræða áætlanir næsta árs og kjósa nýja safnaðarstjórn. Eftir þetta heldur WJELC árlega ráðstefnu sína í seinni hluta mars, þar sem fulltrúi frá hverjum söfnuði greiðir atkvæði um mikilvæg mál sem varða alla kirkjuna. Oft er tekist á um guðfræðilegar spurningar – síðustu árin hefur spurningin um kvenpresta verið mikið þrætuepli. Þar er einnig tilkynnt hvaða prestar þjóna hverjum söfnuði. Vegna skorts á prestum getur það verið þrautin þyngri að tryggja að allir söfnuðir hafi sinn sóknarprest eða kristniboða (42 söfnuðir í allt). Síðastlin ár hafa margir eldri prestar farið á eftirlaun og endurnýjun hefur ekki verið góð.

Nýir starfskraftar á Rokkóeyju

Í ár var séra Masakazu Kanji, presturinn okkar, fluttur til í starfi. Hann þjónar nú í Himejii nágrannaborg Kobe. Það er mikil eftirsjá af honum. Það hefur verið gott að vinna með honum undanfarin tvö ár. En maður kemur í manns stað – í hans stað kemur séra Yoshiharu Hirano, sem nýlega fór á eftirlaun eftir margra ára þjónustu við söfnuði í Osaka. Hann hefur einnig starfað sem kristniboði í Indónesíu (frá 1980). En allt frá upphafi hefur WJELC lagt mikla áherslu á kristniboð. Séra Hirano hefur mikla reynslu og hann er brennandi fyrir kristniboði, að flytja fagnaðarerindið þeim sem ekki þekkja boðskapinn um Jesú. Það verður spennandi að vinna með presti sem sjálfur hefur reynslu af kristniboði í annari menningu.

Michiko Hoside, sem hefur verið í söfnuðinum hér í mörg ár, lauk nýlega tveggja ára námi við prestaskólann í Kobe (KLTS). Námið miðar að því að undirbúa leikmenn til að taka virkari þátt í starfi kirkjunnar. Michiko hefur haft umsjón með sunnudagsskólanum. Hún er einnig brennandi fyrir að boða fagnaðarerindið um Jesú.

Nýtt fólk

Nýlega hafa tveir nýir gestir, karl og kona, byrjað að sækja kirkjuna. Þau búa bæði hér á eyjunni. Lútherska kirkjan er eina kirkjan á eyjunni, þannig að reglulega kemur nýtt fólk sem lítur við og heimsækir kirkjuna í fyrsta skipti. Þau hafa bæði lýst miklum áhuga á að læra meira um Biblíuna. Síðastliðin sunnudag tók maðurinn þátt í Biblíuleshópi karla sem hittist einu sinn í mánuði eftir guðsþjónustu. Það var mjög ánægjulegt og jafnvel þótt margt sé enn mjög nýtt fyrir  honum þá tók hann virkan þátt og bað með okkur. Söfnuðurinn tekur nýju fólki opnum örmum og við vonum að þau kynnist Drottni og komist til trúar. Biðjið fyrir þeim (hr. Sionoya og frú Nakagawa).

Unglingastarfið

Unglingahópurinn, sem kallast „Teens“, hefur einnig stækkað. Tveir drengir sem sóttu sunnudagaskólann taka nú þátt í unglingastarfinu. Við stefnum einnig á að ná betur til unglinga í gagnfræðaskóla, sem er hér í næsta nágrenni við kirkjuna. Ég er svo heppinn að hafa góðan leiðtoga með mér í þessu starfi, Sei Kadoya, sem er háskólanemi. Hann spilar á gítar og er mjög virkur í kristilegu skólahreyfingunni (KGK). Það er gott að hafa gott samstarfsfólk og ég get oft falið honum ýmis verkefni. Það er spennandi að sjá hann vaxa og taka sífellt meiri ábyrgð. Hann er að glíma við hvort Guð sé að kalla hann til þjónustu og hvort hann eigi að sækja um í prestaskólanum eftir að hann lýkur námi á næsta ári. Biðjið fyrir honum og framtíð hans.

Tónleikar

Í júní mun hljómsveit frá Finnlandi ferðast um Japan og heimsækja nokkra söfnuði í WJELC. Hljómsveitin – Mikko Goes To Heaven (MGTH) hefur oft ferðast til Japans. Síðast kom hún þegar við bjuggum í Fukuyama (2014). Hljómsveitina skipa miklir fagmenn og gera hlutina mjög vel. Flestir söngvarnir eru á japönsku og mestmegnis frumsamdir. Þegar þeir komu til okkar í Fukuyama var kirkjan þéttsetin og margir sögðu okkur seinna að tónlistin og vitnisburðurinn hefði snert þá djúpt.

Leifur Sigurðsson