Sorg í Egyptalandi

Enn á ný syrgja Egyptar í kjölfar árása gegn kristnu fólki. Nýverið var prestur rétttrúnaðarkirkjunnar myrtur með hrottalegum hætti; SAT-7 greindi frá þessu og haldin var bænastund fyrir hina syrgjandi aðstandendur.

Presturinn hét Samaan Shehata og var stunginn til bana 12. október sl. Frá því í desember í fyrra hafa meira en 100 kristnir menn verið myrtir í sprengjuárásum á kirkjur, hnífa-  og skotárásum í Egyptalandi.

Samaan Shehata var frá Beni Suef, lítilli borg í Mið-Egyptalandi. Hann hafði vitjað fjölskyldu í Kaíró og á leiðinni af heimili fjölskyldunnar til nærliggjandi kirkju var ráðist á hann og hann myrtur á miskunnarlausan hátt. Prestar rétttrúnaðarkirkjunnar ganga með áberandi kross og ljóst að það virðist nóg til að hatrið og heiftin, sem býr í mörgum, brjótist út.

MAÐUR KÆRLEIKANS

Í þætti SAT-7 sem ber heitið Keep on Singing (e. Látið sönginn hljóma) bað lofgjörðarsveitin fjölskyldunni friðar og huggunar í söng og bæn til Drottins. Kórstjórinn þekkti Samaan persónulega og lýsti honum sem auðmjúkum þjóni Guðs sem endurspeglaði í öllu sínu lífi þann kærleika sem Jesús hefur kennt okkur.

Í þættinum voru lesin orðin í Róm. 14:8: Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Þættinum lauk með bæn þar sem beðið var fyrir aðstandendum og því að þessum ofsóknum mætti linna.

KALLAÐ EFTIR ÁBYRGÐ

Terence Ascott, stofnandi og stjórnarformaður SAT-7, lét hafa eftir sér: Réttlát reiði eykst á meðal kristinna Egypta. Hvenær munu þeir njóta sömu réttinda og aðrir þegnar þessa fallega lands?

SAT-7 stendur með koptísku kirkjunni í Egyptalandi og biður þess að Guð varðveiti alla kristna menn á þessum erfiðu tímum.