Sjónvarpskristniboð skiptir máli í Íran

Hvergi í heiminum er eiturlyfjaneysla eins mikil og í Íran. Talið er að 2 milljónir manna séu háðir fíkniefnum. Flestir eru ungir, atvinnlausir menn, sem hvorki mega umgangast hitt kynið né neyta alkóhóls. Eiturlyf virðist því eina leiðin fyrir marga. Sala eiturlyfja er líka leið út úr fátækt, sérstaklega vegna blómstrandi verslunar á heróíni í nágrannalandinu Afganistan.

Kristilega sjónvarpsstöðin Sat-7, sem sendir út á farsi, reynir að taka á vandanum með vönduðum sjónvarpsþáttum. Einn þeirra kallast „Mýrin“ og er leikþáttur sem fjallar um kostnað samfélagsins vegna eiturlyfjaneyslu. Omid Ahangar, þekktur íranskur leikari, fer með aðalhlutverkið. Leikritið fjallar um vináttu fréttamanns og fyrrverandi eiturlyfjaneytanda, Nadar, sem hefur misst allt sitt. Áhersla er lögð á hvernig trúin á Guð getur breytt skaðsömu líferni einstaklings.

Á næstu mánuðum á að sýna 45 mínútna langa fræðsluþætti sem kallast „Staðreyndir um eiturlyf í Íran“. Í þáttunum verða fluttir vitnisburðir þriggja einstaklinga, konu sem er gift eiturlyfjaneytanda, eiturlyfjaneytanda og fyrrverandi eiturlyfjasala.

Nú er verið að sýna vikulega þætti sem kallast „Vonarneisti“ og fjallar um staðreyndir og rannsóknir á eiturlyfjaneyslu. Þáttarstjórnandi er íranskur prestur, Miltan Danil, sem sjálfur var eiturlyfjaneytandi en losnaði úr fíkninni. Markmið þáttanna er að ná til áhorfenda með áhugaverðum umræðum sem hvetur þá til að ræða opinskátt um eigin vanda í beinni útsendingu. Miltan vill hjálpa fólki að skilja sjálft sig og íhuga samband sitt við Guð. Sjálfur segir hann: „Mig langar að sjá fólk sem er í fjötrum fíknar binda vonir sínar við Jesú og sjá það læknast og verða frjálst. Ég bið um vísdóm og styrk frá Guði til að gera nafn hans dýrlegt. Ég bið þess að ég geti þjónað áhorfendum, sem eru bundnir alls konar fíknum, með kærleika og umhyggju og ég bið um frelsi fyrir Íran.“

Mikill fjöldi áhorfenda biður um fyrirbæn og ráðleggingar vegna fíkniefnaneyslu. Margir segja frá þeim góðu áhrifum sem Vonarneisti hefur haft á líf þeirra. Einn áhorfenda skrifaði: „Ég þakka Guði á hverjum degi fyrir ykkur í Sat-7, sérstaklega Miltan. Alveg eins og nafn þáttarins eruð þið vonarneisti okkar allra og það langar mig að þakka. Þið skiljið vandamál mitt og eruð mér sem bróðir sem veitir mér von í erfiðleikum lífsins.

Þrír mismunandi þættir en sami boðskapurinn. Ungir menn sem leita að tilgangi lífsins handan eiturlyfjanotkunar sjá von í Jesú Kristi. Biðjum fyrir þeim með orðunum úr Mattheusarguðspjalli, 11. kafla, versum 29-30: Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ 

(Heimild: Sat7.org)